Það er frumskylda ríkisvaldsins að sjá mönnum fyrir gemsa og internettengingu. – Eitthvað á þessa leið hljómaði tilkynning frá þingflokki vinstri grænna í fyrradag. Þessi skilgreining vinstrigrænna á ríkisvaldinu kemur svo sem ekki á óvart. Þeir vilja raunar ekki aðeins að ríkið reki símafyrirtæki heldur að ríkið hafi á því einkaleyfi. Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson þingmenn vinstri grænna voru einnig andvígir því að afnema einokun ríkisins á útvarpsrekstri á sínum tíma og gátu ekki hugsað sér að Íslendingar fengju leyfi til að drekka bjór. Það mætti því ætla að flokkur sem lætur sér svo annt um að ríkið vasist í öllum málum, skammti fólki síma, áfengi og útvarpsefni, hafi ekkert á móti því að landsmenn njóti verndar gegn hryðjuverkamönnum. En á sama tíma og vinstrigrænir eru í öngum sínum yfir því að ríkið ætli að draga örlítið úr umsvifum sínum og hætta samkeppni við einkarekin símafyrirtæki reynir Steingrímur J. Sigfússon formaður flokksins að spilla fyrir því að beitt verði valdi til að koma böndum á hryðjuverkamenn sem fremja ólýsanleg illvirki.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi fyrrverandi varaformaður Alþýðubandalagsins, arftaka Kommúnistaflokks Íslands, hefur uppi efasemdir um að eltast eigi að misyndismenn. Þegar Sólveig Pétursdóttir, dómsmálaráðherra, ákvað á síðasta ári að láta kanna hvort Íslendinga væri getið í skjölum austur-þýsku leyniþjónustunnar STASI var Steingrímur með efasemdir um að það ætti rétt á sér og taldi ekki rétt að „sarga“ um of á því hvaða menn það voru sem vildu Sovét-Ísland. Taldi hann ekki síður þörf á því að athuga hverjir hefðu verið með tengingu við Bandaríkin!
Jæja, þá er biðin á enda. Það er búið að opna heimasíðu sem eingöngu sinnir mönnum sem líta út eins og Kenny Rogers. Á henni má sjá fjölda mynda af slíkum mönnum ásamt heilræðum um hvar líklegast sé að rekast á þá í eigin persónu. Svo virðist sem Kenny eigi fjölda tvífara og hafa menn orðið skelkaðir af minna tilefni. Tvífararnir koma allsstaðar að; einn virðist meira að segja ekki þurfa að missa mörg pund áður en hann gæti tekið að sér að reka læknisfræðilegt erfðarannsóknafyrirtæki. Slóðin á síðunni er að sjálfsögðu… http://www.menwholooklikekennyrogers.com/