Þriðjudagur 18. september 2001

261. tbl. 5. árg.

Hið opinbera hefur undanfarin ár hrúgað upp ýmsum nýjum embættum og stofnunum. Allt hefur það átt að vera til bóta, framfara og ómælds gagns en vitaskuld hefur árangurinn í raun orðið misjafn. Það embætti sem mest hefur verið lofað og prísað er líklega starfsmaður sem nefndur er „Umboðsmaður Alþingis“, en honum var komið á fót í þeim tilgangi að líta eftir stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og gera athugasemdir ef hann telur að ríki eða sveitarfélög virði ekki réttindi borgaranna í stjórnsýslu sinni. Getur umboðsmaður gefið út álit sitt á hinu og þessu í stjórnsýslunni og ef hann telur ástæðu til þá getur hann beint tilmælum til stjórnvaldsins um breytingar. Samkvæmt þessu er umboðsmanni ætlað að veita stjórnsýslunni aðhald og hefur hann oft komið með góðar ábendingar sem hafa gert framkvæmd betri og styrkt rétt hins almenna borgara.

Og meðal annars þess vegna er embætti umboðsmanns Alþingis vinsælt embætti. Gallinn er hins vegar sá, að undanfarið hefur færst í vöxt að menn álíti að umboðsmaður „úrskurði“ um mál eða stjórnvöldum sé skylt að „virða úrskurði umboðsmanns“. Sérstaklega hefur fréttamönnum verið tamt að nota orðalag sem þetta og hefur sá háttur þeirra efalítið átt talsverðan þátt í að sannfæra fólk um þennan mátt umboðsmanns Alþingis. En svo það sé á hreinu þá „úrskurðar“ umboðsmaður ekki – hann gefur álit sitt. Og í álitum sínum gefur hann stjórnsýslunni ekki fyrirmæli – heldur tilmæli. Sé stjórnsýslan ósammála umboðsmanni getur sá sem kvartaði til umboðsmanns einfaldlega leitað réttar síns fyrir dómstólum. Eins og aðrir menn verða að gera sér að góðu.

Sumir telja það hið mesta hneyksli ef ekki farið að tilmælum umboðsmanns. Það sé gríðarlegur hroki að ekki sé meira sagt ef einhvers staðar í stjórnsýslunni dirfast menn til að fara ekki í einu og öllu að tilmælunum. Þannig ganga nú stóryrðin yfir Lánasjóð íslenskra námsmanna þar sem að sjóðurinn hyggst í tilteknu máli fara að úrskurðum sérstakrar lögskipaðrar úrskurðarnefndar Lánasjóðsins en ekki beygja sig fyrir áliti sem barst frá skrifstofu umboðsmanns Alþingis. Og þetta þykir fjölmiðlamönnum algert hneyksli. Alvarlegur í bragði spurði fréttamaður Stöðvar 2 stjórnarformann Lánasjóðsins hvort sjóðnum væri ekki „eins og öðrum opinberum stofnunum skylt að fara að úrskurðum umboðsmanns“ og nú um helgina skrifaði Morgunblaðið einn af sínum þreytandi leiðurum um þetta alvarlega mál.

Umboðsmaður Alþingis er ágætis lögfræðingur sem hafði rekið lögmannsstofu í Reykjavík áður en hann var kjörinn umboðsmaður. Vefþjóðviljinn hefur enga ástæðu til að draga í efa almenna hæfni hans til lögfræðistarfa. Með umboðsmanninum starfa svo nokkrir ungir lögfræðingar, flestir fremur nýlega útskrifaðir en sjálfsagt er engin ástæða til að væna þá um vanhæfni eða telja álit þeirra fyrirfram veigaminni en álit annarra lögfræðinga. En engu að síður eru álit umboðsmanns, hvaða starfsmaður skrifstofunnar sem vinnur hvert og eitt, einfaldlega álit lögfræðings – í sumum tilfellum eflaust fleiri en eins – á tilteknum úrlausnarmálum en enginn endanlegur úrskurður eða dómur sem menn þurfa að fara eftir. Og svo vikið sé að stóra Lánasjóðsmálinu, þá er staðan þar sú að lögskipuð úrskurðarnefnd hefur staðfest tiltekna framkvæmd Lánasjóðsins og umboðsmaður er ekki sammála nefndinni. Þessi nefnd er algerlega óháð Lánasjóðnum og í henni sitja eingöngu kunnir lögfræðingar. Formaður nefndarinnar er skrifstofustjóri Héraðsdóms Reykjavíkur og hefur einnig starfað sem héraðsdómari. Aðrir nefndarmenn eru starfandi lögmenn. Enginn nefndarmaður er á nokkurn hátt undir boðvaldi Lánasjóðsins. En engu að síður þykir sumum það hneyksli sem kalli á tilfinningaþrungin stóryrði að Lánasjóðurinn fari eftir úrskurðum þessarar lögskipuðu úrskurðarnefndar frekar en tilmælum umboðsmanns Alþingis.