Helgarsprokið 16. september 2001

259. tbl. 5. árg.

Eins fráleitt og það er gætu hryðjuverkin í Bandaríkjunum á þriðjudaginn orðið vatn á myllu þeirra manna á Vesturlöndum sem hafa horn í síðu innflytjenda og vilja takmarka möguleika fólks til að flytja til Vesturlanda frá öðrum heimshlutum. Á síðasta áratug varð til nokkuð öflug hreyfing innan bandarískra repúblíkana undir forystu Pat Buchanan og Pete Wilson. Buchanan sagði reyndar skilið við repúblíkana þegar hann gerði sér grein fyrir að málflutningur hans hlaut ekki hljómgrunn innan flokksins.

Þessir andstæðingar innflytjenda spáðu því að fengju innflytjendur að streyma áfram til Bandaríkjanna myndu bandarísk fyrirtæki tapa í samkeppninni við evrópsk og japönsk og atvinnuleysi og fátækt myndu fylgja í kjölfarið. Þrátt fyrir þessar hrakspár og þrátt fyrir að innflytjendur hafi streymt til Bandaríkjanna sem aldrei fyrr tók við eitt mesta hagvaxtarskeið í sögu Bandaríkjanna. Það getur því vel farið saman að bæta haginn og taka við nýju fólki. Það er ekkert sem bendir til annars en að innflytjendur eigi jafnmikinn eða meiri þátt í hagvexti en þeir sem fyrir eru. Þeir auka á sveigjanleika vinnumarkaðarins ásamt því að færa nýjar hugmyndir, þekkingu, vörur og þjónustu til landsins.

Það er raunar furðulegt að nokkur Bandaríkjamaður, sem þekkir sögu eigin þjóðar, skuli líta innflytjendur hornauga. Bandaríkin voru beinlínis búin til með það í huga að laða að fólk. Uppskriftin var einföld og hefur alltaf reynst vel: frelsi.
Í History of the American People rekur Paul Johnson þróun New York borgar: „New York var í fyrstu hollensk borg sem varð síðar ensk en á 19. öld varð hún fjölþjóðleg borg. Þjóðverjar voru yfir sig hrifnir af borginni en einkum þó Írar. Ítalir, Grikkir og gyðingar frá Austur-Evrópu streymdu til borgarinnar. … Árið 1886 á 100 ára afmæli sjálfstæðis Bandaríkjanna, gáfu Frakkar Bandaríkjunum gríðarlega koparstyttu tileinkaða frelsinu eftir Frederic Auguste Bartholdi. Styttunni var komið fyrir á 50 metra háum stalli á Bedloe eyju í höfn New York borgar. Styttan er alls 100 metrar að hæð og var sú hæsta í heimi. Líklega náðu fáir að lýsa því á jafn næman hátt hve mikilvægt það var fyrir fátæka og ofsótta frá Evrópu að Bandaríkin stóðu þeim opin og Emma Lazarus (1849 – 87) sem var gyðingur og vann að velferðamálum. Hún samdi sonnettu, The New Colossus, til að fagna styttunni þar sem sjálf gyðja frelsisins talar til gamla heimsins:

Give me your tired, your poor,
Your huddled masses yearning to breathe free,
The wretched refuse of your teeming shore.
Send these, the homeless, the tempest-toss’d to me.
I lift my lamp beside the golden door.“