Vísbending fjallar um veiðigjald í nýjasta tölublaði sínu. Þar er minnt á að kvótakerfinu var komið á til að stýra sókn í einstaka fiskistofna, þeim til verndar. Þetta markmið hafi í meginatriðum náðst. Þá hafi kvótinn verið hafður framseljanelgur til þess að hagræðing næðist í greininni og reksturinn færðist til þeirra, sem bestum árangri hafa náð í rekstri hingað til. Þetta markmið hafi náðst að hluta, kvóti hafi færst frá illa stæðum fyrirtækjum til annarra stöndugri. Afleiðingin hafi verið tilflutningur fólks milli byggðarlaga og það hafi því aukið þjóðhagslega hagkvæmni.Vísbending bendir einnig á að sala á aflaheimildum færi mörgum fé, sem þeir hafa síðan lagt í annan atvinnurekstur eða neyslu. Þetta sé eðlileg afleiðing hagræðingar en valdi úlfúð þar sem ekkert var greitt fyrir heimildirnar þegar þeim var upphaflega úthlutað. Sumir hafi þó greitt hátt verð fyrir veiðiheimildir á markaði og veiðileyfakerfi gæti gert fjárfestingar þeirra að engu.
Með veiðigjaldi færðust miðin á hendur ríkisins. Meðferð stjórnvalda á almannafé gefur ekki fyrirheit um að slíkt yrði til heilla. Sú hugmynd að tala um umframhagnað í sjávarútvegi, sem væntanlega megi skattleggja 100%, er heldur lýðskrumsleg. … Við núverandi aðstæður verður að telja það glapræði einstaklinga eða smárra aðila sem eiga kvóta að selja hann ekki, meðan enn finnast einhverjir sem þora að kaupa. Þessi orð Vísbendingar eru réttmæt og sýna vel að háværar kröfur um einhvers konar veiðiskatts geta aukið á óvissu innan greinarinnar en það er nokkuð sem hún þarf ekki á að halda. Einnig gætu kröfur veiðiskattssinna fælt menn úr eða frá greininni, sem eiga þó fullt erindi þangað, og þeir valið sér annan starfsvettvang þar sem þeir þurfa ekki að liggja undir stöðugum ásökunum um að vera að stela þjóðareigninni.