Miðvikudagur 3. desember 1997

337. tbl. 1. árg.

Mesta dagpeninga- og risnuhátíð, sem haldin hefur verið frá mannfjöldaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og kvennaráðstefnunni í Peking, fer fram í Kyoto í Japan þessa dagana. Þar eru saman komnir 10.000 veislugestir til iðka gamlan íslenskan þjóðsið – að ræða um veðrið. Þar eru m.a. margir umhverfisverndarsinnar en þeir eru frægir fyrir að vantreysta vísindum og tækni og benda gjarna á að vísindin og tæknivæðingin hafi gengið nærri náttúrunni. Engu að síður eru þeir tilbúnir til að trúa veðurspá nokkurra vísindamanna fyrir næstu 100 árin .

Margir hafa áhyggjur af því að trú á gróðurhúsaguðinn hafi áhrif á þá sem útdeila fé til rannsókna. Í viðtali við Stöð 4 í Bretlandi árið 1990 sagði dr. Roy Spencer hjá NASA: „Það er auðveldara að fá fjárframlög  til rannsókna ef þú getur sýnt fram á gögn um yfirvofandi hörmungar í vegna breytinga í andrúmsloftinu. Árið 1970  var það yfirvofandi ísöld sem dugði best til að fá styrki. Hver veit hvað mun virka til fjáröflunar eftir tíu ár.“

Sveitarstjórnarmenn eru greinilega miklir hugsjónamenn og láta ekki smámál hagga sér – eða þannig. Bæjarstjórnin í Hafnarfirði splundraðist vegna skipunar í stöðu bæjarverkfræðings, allt fór upp í loft í Hveragerði vegna baðvarðarstöðu í sundlauginni og á Ísafirði klofnaði meirihlutinn í herðar niður vegna aflóga frystihúss.

Í dag kemur 313. tölublað VÞ út. Í Morgunblaðinu um daginn var fjallað um 313. dag ársins og þar sagði :„Dagurinn í dag er 313. dagur ársins. Á morgun hefst 46. vika þess. Það eyðist sem af er tekið, sögðu gamlir menn. Það gildir um sérhvert ár.“
En talan 313 er fræg fyrir fleira en að vera tilefni greinaskrifa í Morgunblaðinu. Hún er hvorki meira né minna en bílnúmer Andrésar andar í Andabæ en hann lætur ekki Þorbjörn Broddason og aðra vinstrimenn segja sér fyrir verkum og ögrar samfélaginu hiklaust með því að labba um buxnalaus og búa með nokkrum ungum öndum sem hann segir vera frændur sína (enda lætur hann Hábein um Andresínu). En talan 313 er einnig útkoman úr dæminu 365-52 en það eru hefðbundnir útgáfudagar Morgunblaðsins á einu ári. Þrátt fyrir að VÞ hafi ekki komið út fyrr en 24. janúar mun hann hafa komið jafnoft út og Morgunblaðinu tekst á þessu ári. VÞ vísar því svo á bug að þessi umfjöllun um töluna 313 sé auglýsing fyrir internetþjónustur sem eru á blaðsíðu 313 í símaskránni..