Mánudagur 1. desember 1997

335. tbl. 1. árg.

Heimdallur og Samband ungra sjálfstæðismanna hafa gefið út lítinn bækling þar sem afstaða félaganna til auðlindaskatts er kynnt. Á forsíðu bæklingsins segir: „Nytjastofnarnir á Íslandsmiðum eru ekki sameign þjóðarinnar í skilningi eignarréttar. Í 1. grein fiskveiðistjórnunarlaganna felst aðeins stefnuyfirlýsing um að stofnana skuli nýta með hagsmuni þjóðarheildarinnar í huga. Ráðstöfun arðsins þarf að vera ábatasöm, án sértækra aðgerða stjórnmálamanna. Núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, sem lýtur markaðslögmálum, hefur stuðlað að vaxandi kaupmætti hér á landi. Ekki síst þess vegna hafna ungir sjálfstæðismenn auðlindaskatti alfarið. “

Talsmenn aukinnar skattheimu með upptöku auðlindaskatts hafa jafnan byggt málflutning sinn á 1. grein fiskveiðistjórnunarlaganna. Af einhverjum ástæðum hefur ekki verið nægjanlega útskýrt fyrir þeim að greinina er ekki hægt að taka bókstaflega. Þjóðin getur ekki verið aðili eignarréttinda. Villtir og vörslulausir stofnar eins og fiskistofnarnir við Ísland geta heldur ekki talist eign. Það væri andstætt íslenskum rétti. Hins vegar geta menn átt réttinn til að nýta stofnana með ákveðnum skilyrðum.

Ágúst Einarsson, þingmaður Þjóðvaka, sagði í fréttum í gærkvöldi að það væri ekki rétt að hann hefði gengið átta sinnum í Alþýðuflokkinn. Hið rétta væri að hann hefði gengið þrisvar sinnum í flokkinn. Ágúst hefur einnig lækkað hugmyndir sínar um veiðileyfagjald úr 15 milljörðum í 2 milljarða að undanförnu. Fylgi Þjóðvaka hefur svo fallið úr 7% í 1%. Það virðist því almennt góð regla að deila með svona 5 í það sem Ágúst segir og gerir. Þannig fæst raunhæf mynd af manninum.

Elsa B. Valsdóttir flytur pistla annan hvern þriðjudagsmorgun upp úr 8:30 á Rás 2. VÞ hefur fengið pistlana til birtingar en lesendur hafa beðið um að þeir væru gerðir aðgengilegir í heild. Hér með hefur verið orðið við þeirri bón.