Helgarsprokið 30. nóvember 1997

334. tbl. 1. árg.
Umræða um fíkniefnavandann hérlendis snýst yfirleitt um þyngingu dóma, fjölgun hasshunda, aukin fjárframlög til fíkniefnadeildar og fleira af því tagi. Til að friða almenning og láta sem verið sé að leysa þennan vanda gera yfirvöld óraunhæfar áætlanir um að Ísland verði „fíkniefnalaust“ á einhverju tilteknu ári í framtíðinni og höfð eru uppi stóryrði um þá sem með höndla með þessi efni. Þetta er í stíl við afstöðu flestra ríkisstjórna heims, sbr. t.d. stríð sem Bandaríkin hafa lengi vel háð við fíkniefni (War on drugs) án þess að nokkuð hafi áunnist. Látum liggja á milli hluta þá furðulegu hugmynd að heyja stríð við dauða hluti, en skyldi stríðsrekstur af þessu tagi vera eina svarið við fíkniefnavandanum? Getur verið að áframhaldandi barátta sem kostar árlega gífurlega fjármuni, hefur ekki fækkað fíkniefnaneytendum en yfirfyllt öll fangelsi sé eina „lausnin“?

Lausn fíkniefnavandans – að svo miklu leyti sem hægt er að leysa hann – felst í minni trú á bönnum og refsingum en meiri trú á frelsi einstaklinga og auknu umburðarlyndi. Víða eru menn að þreifa sig áfram með að lögleiða fíkniefni að einhverju leyti og þar hefur ástandið almennt farið batnandi. Umræður erlendis eru oft á öðru plani en hér á landi og í nýlegu hefti þýska vikuritsins Stern er t.a.m. fjallað um Frankfurt am Main þar sem fíkniefnaneytendur hafa ákveðið afdrep þar sem þeir fá að vera í friði og tílraun í Sviss með fíkniefnagjöf undir eftirliti til þeirra sem eru langt leiddir af heróíni. Þessar aðgerðir hafa bætt mjög líðan þeirra sem háðir eru efnunum og einnig aukið öryggi annarra borgara, því glæpir tengdir fíkniefnum hafa hrapað. Vitnað er til orða lögreglumanns í Zürich sem segir: „Þeir, sem eru í meðferðinni, eru ekki lengur neitt vandamál fyrir lögregluna.“

Hérlendis hafa menn þar til nýverið haldið að önnur efnahagslögmál giltu hér en annars staðar. Hægt væri með handafli að stýra efnahagslífinu því Ísland væri svo lítið. Flestir hafa áttað sig á að sú er ekki raunin og að sömu lögmál gilda hér og annars staðar. Vonandi átta menn sig á því áður en í meira óefni er komið vegna fíkniefna, að sömu lögmál gilda einnig hér og annars staðar í þeim málaflokki. Ísland er (sem betur fer!) ekki lítið alræðisríki þar sem hið opinbera getur fylgst með öllu sem fram fer. Þess vegna þýðir ekki annað en endurskoða viðhorf til fíkniefna og beita skynsamlegum og raunhæfum leiðum til að lágmarka vandann í stað þess að láta óraunhæf öfgasjónarmið ráða ferðinni. Lögleiðing þeirra fíkniefna sem ólögleg eru nú (þ.e. annarra en t.d. tóbaks og áfengis) er eina raunhæfa leiðin í baráttunni við fíkniefnavandann. Þegar slíkt skref hefur verið stigið geta menn einbeitt sér að fræðslu um skaðsemi þeirra og aðstoð við þá sem fara illa út úr neyslunni, en engin ástæða er til að ætla að þeir yrðu fleiri en nú er.

Í óravíddum Netsins er að finna margar forvitnilegar slóðir sem tengjast þessu málefni. VÞ mælir með því að almenningur og stjórnmálamenn kynni sér með opnum huga málflutning þeirra sem vilja lögleiða fíkniefni. Einn staður sem hægt er að byrja á er MAP Drug Policy Links en þar er vísað á fjölmargar aðrar slóðir.