303. tbl. 1. árg.
|  Sjómannaafsláttur leggst af verði  	lagafrumvarp Péturs H. Blöndals alþingismanns  	um breytingar á tekju- og eignarskatt lögfest. Það  	væri stórt skref í átt til réttlátara  	tekjuskattkerfis ef þetta frumvarp yrði að lögum enda  	óþolandi ranglæti að sumir landsmenn njóti  	skattalegra sérkjara umfram aðra. Til að lesendur átti  	sig á því um hversu miklar upphæðir er að  	ræða má nefna að afslátturinn til sjómanna  	er 1,6 milljarður króna, þannig að ef hann yrði  	felldur niður mætti lækka aðra skatta verulega. Greinargerðin  	með frumvarpinu  er holl lesning, en þar segir m.a.:  	„Eðlilegt er að útgerðin beri þann launakostnað  	sem leiðir af  því að kjör sjómanna  	eftir greiðslu á tekjuskatti séu þannig að  	manna megi flotann í samkeppni á vinnumarkaði.“ Um þessa  	staðhæfingu ætti varla að þurfa að deila,  	en í dag er það svo að sjómannaafslátturinn  	kemur út sem niðurgreiðslur almennings á launakostnaði  	útgerðarinnar.Athygli hefur vakið að þeir sem  	hæst láta um að leggja sérstakan auðlindaskatt  	á útgerðirnar og segjast tala máli réttlætisins  	hafa látið minna í sér heyra vegna þessa  	augljósa réttlætismáls. Það má  	þó varla ætla þeim að vera með því  	að kaupa sér stuðning sjómanna.    	
 Sem kunnugt er fór fram um síðustu  	helgi prófkjör Sjálfstæðisflokksins í  	Reykjavík, fyrir borgarstjórnarkosningarnar í  	vor. Þetta prófkjör lofar ýmsu góðu  	ef að sjálfstæðismenn vinna borgina, því  	að þeir sem náðu árangri í því  	lögðu allir áherslu á skattalækkanir. Þó  	var einhver keppni í gangi á milli frambjóðenda  	um hverjum gæti hugkvæmst vinsælasta nýja leiðin  	til að eyða krónum skattgreiðenda, hvort heldur sem  	það væri í vatnshana í skólum, tónlistarhús  	eða til íþróttamála. En það er  	vonandi að þegar á hólminn er komið verði  	prófkjörsgæluverkefni lögð til hliðar og  	skattalækkanir og sparnaður sett á oddinn.    	 
Það var lengi uppi sú kenning að  	það væri sjálfsögð samfélagsleg  	þjónusta að styrkja vinstrimenn til blaðaútgáfu.  	Þar með gætu þeir skrifað í eigin blöð  	án þess að angra aðra með skrifum sínum.  	Þjóðviljinn, Vikublaðið, Alþýðublaðið  	og Tíminn voru ágæt dæmi um þetta. Atburðir  	gærdagsins í Þverholtinu benda ef til vill til þess  	að þetta hafi ekki verið svo vitlaus kenning.             
 |