Vefþjóðviljinn 52. tbl. 19. árg.
Á dögunum bar þingmaður og formaður stjórnmálaflokks erfðamál fjölskyldu sinnar á torg, meðal annars í löngu viðtali í Kastljósi Ríkissjónvarpsins, eftir að dómur vegna skuldbindinga hins látna hafði fallið honum og öðrum erfingjunum í óhag í héraði. Heimsins óréttlæti hafði að því er áhorfendum Kastljóssins virtist lagst á þingmanninn.
Í stuttu máli virðist þingmaðurinn líta svo á að eignir látins manns eigi að renna til erfingja en skuldbindingar hins látna eigi hins vegar að lenda á lánveitanda, sem í þessu tilviki var Lánasjóður íslenska námsmanna sem íslenska ríkið rekur fyrir skattfé frá almenningi.
Þetta viðhorf þingmannsins til þjóðnýtingar einkaskulda kom nokkuð á óvart því hann hafði skömmu áður lýst sig andvígan svonefndri skuldaleiðréttingu sem ríkisstjórnin framkvæmir fyrir skattfé. Hann hafði að vísu sótt um hana sjálfur til að sjá hvernig hún gengi fyrir sig. Skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar var með 4 milljóna króna hámarki. Námslánið sem hinn látni var í ábyrgð fyrir stendur hins vegar í 12 milljónum króna.
Nú er auðvitað engin leið að segja til um hvernig þessu máli reiðir af í hæstarétti þangað sem erfingjarnir ætla að áfrýja því.
En ef að þetta mál á að reka frekar í fjölmiðlum væri eðlilegt að öll gögn málsins séu lögð fram, þar með talin eigna- og skuldastaða dánarbúsins, hvernig því var skipt og öll tiltæk gögn um lánið sjálft sem deilt er um.
Það er eiginlega lágmarkskrafa fyrir hönd skattgreiðenda, sem standa ekki aðeins undir útsendingu Kastljóssins, heldur er einnig ætlað að hlaupa undir bagga með ábyrgðarmanni lánsins og erfingjum hans.
Þess má svo að lokum geta að í hópi eftirlifandi erfingja ábyrgðarmannsins er bróðir þingmannsins, lántakinn sjálfur!