Föstudagur 20. febrúar 2015

Vefþjóðviljinn 51. tbl. 19. árg.

Hið opinbera skiptir sér af fleiru og fleiru í daglegu lífi fólks. Skattar hafa verið hækkaðir verulega á undanförnum árum og núverandi ríkisstjórn gerir lítið í því að lækka þá aftur. Skuldir hins opinbera hafa aukist gríðarlega á örfáum árum. 

Stjórnarþingmönnum þykir hins vegar nægilegt að afgreiða fjárlög „án halla“.
Niðurskurður sem máli skiptir er lítill sem enginn. Ráðherrarnir hafa ótrúlega lítið baráttuþrek þegar kemur að niðurskurði. 

Fjölmiðlamenn láta oft eins og þá langi til að benda á rangfærslur stjórnmálamanna. Fréttamaður Ríkisútvarpsins, sem hafði nýlega eftir einum ráðherranum að á næsta ári yrði áfram „aðhald á öllum sviðum“ ríkisrekstrarins, hefði getað bent ráðherranum á að við afgreiðslu síðustu fjárlaga ákváðu stjórnarþingmenn að auka verulega framlög hins opinbera til hítarinnar í Efstaleiti 1.

Starfsmenn Ríkisútvarpsins herða sig í áróðrinum enda ganga þeir sjálfala. Stjórnarþingmenn herða sig í að auka fjárveitingarnar til þeirra. 

Ráðherrar halda að á öllum sviðum sé mikið aðhald. Aðhaldið er svo mikið að þeir hækkuðu meira að segja verulega framlög til jafnréttisstofu, enda þarf að vera nóg af kynjafræðingum til að fara í viðtöl í Víðsjá.