Vefþjóðviljinn 146.tbl. 16. árg.
Önnur mest selda bók síðasta árs í Bóksölu Andríkis, á eftir Rosabaugi Björns Bjarnasonar, er hin ógleymanlega bók, Engan þarf að öfunda, sem lýsir lífi nokkurra ólíkra einstaklinga undir ógnarstjórninni í Norður-Kóreu.
Í dag bætist í Bóksöluna ný bók, Stasiland, og ber undirtitilinn Sögur af fólki handan Berlínarmúrsins. Segir þar ástralski rithöfundurinn Anna Funder sögur af lífi venjulegs fólks í einu mesta eftirlitsríki allra tíma, Austur-Þýskalandi.
Í kynningu útgefanda segir að í bókinni sé brugðið upp „hugstæðri mynd af óreiðu og fegurð Berlínar þar sem margir íbúanna glíma við minningar frá því að Múrinn skipti borginni í tvo aðskilda hluta. Oftar en ekki eru minningarnar þess eðlis að þeim er ekki hægt að gleyma. Ljóðræn og átakanleg lýsing á hugrekki þeirra sem risu upp gegn ógninni og afleiðingunum fyrir þá sem gengu í lið með Stasi, öryggislögreglu ríkisins. Stasiland … hefur farið sigurför um heiminn og verið þýdd á um tuttugu tungumál.“
Og ef menn vilja rifja upp hverjir það voru sem árum saman lofsungu það þjóðfélagsskipulag sem varið var Múrnum, þá er sjálfsagt að minna á stórvirkið Íslenska kommúnista 1918-1998 eftir Hannes Hólmstein Gissurarson. Það er bók sem vinstrimenn vilja hvorki að menn lesi né kaupi, og þeir sem vilja skaprauna vinstrimönnum gera því auðvitað hvort tveggja – og ræða efni bókarinnar svo við vini sína.