Fimmtudagur 24. maí 2012

Vefþjóðviljinn 145. tbl. 16. árg.

Hreyfingin er andvíg eigin hugsjón um þjóðaratkvæðagreiðslur.
Hreyfingin er andvíg eigin hugsjón um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Það hefur verið unaðslegt að fylgjast með þjóðaratkvæðagreiðsluflokkunum, Samfylkingu og VG, slást gegn hverri þjóðaratkvæðagreiðslunni á fætur annarri. Á þessu kjörtímabili hafa þeir ítrekað lagst gegn slíkum atkvæðagreiðslum um Icesave og einnig tillögum um að aðildarviðræður við ESB fari þá leið.

Sérleg dásemd fylgir því auðvitað að sjá Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon mæla af kappi gegn þjóðaratkvæðagreiðslum. Jóhanna hafði, áður en hún náði taki á valdataumunum, flutt sífelldar tillögur um þjóðaratkvæði. Steingrímur skrifaði bókarkafla um að öll mál ættu heima í þjóðaratkvæði. Steingrímur taldi þá „úrtölumenn“ sem ekki vildu senda öll mál, stór og smá, einföld og flókin, í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Og nú hefur þeim bæst liðsstyrkur í þessari sérstöku baráttu gegn eigin lífsprinsippi um þjóðaratkvæðagreiðslur. Þingmenn Hreyfingarinnar, Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að tillaga um þjóðatkvæði um aðildarviðræðurnar að ESB nái fram að ganga.