Hvað óttastu mest? – Múgæsingu. |
– Tímaritið Monitor ræðir við Ara Eldjárn, 29. júlí 2010. |
Í tímaritnu Monitor, sem fylgir Morgunblaðinu á fimmtudögum, var í gær rætt við Ara Eldjárn, sem á skömmum tíma hefur getið sér gott orð fyrir vel gert skop og skemmtilegheit, en nú síðast hefur hann komið fram sem gamli refurinn Gary Duncan, og kennt knattspyrnulistir.
Hið orðfáa svar Ara við spurningu tímaritsins er ágætt. Múgæsing er hættuleg og ógnvekjandi. Stjórnlaus múgur er ákaflega ógeðfellt fyrirbæri og getur hæglega orðið hættulegur lífi, heilsu og eignum annarra. Þá hefur múgæsing aðra fylgifiska, svo sem þá sem í skjóli hennar reyna að fá útrás fyrir ýmsar langanir sínar, hvort sem er um völd og áhrif sjálfum sér til handa, löngun til að jafna um einhverja tiltekna andstæðinga sína, eða sjá einfaldlega í múgæsingunni möguleikann á því að sleppa fram af sér öllum beislum, í trausti þess að einstakir þátttakendur á múgæsingartímum muni aldrei þurfa að svara fyrir gerðir sínar.
Þegar lögreglan hættir að þora að taka á múgæsingu, eða slíkum viðhengjum hennar, eru lög og réttur í hættu. Staðreyndin er sú, að múgur hefur í engu meiri rétt en þeir einstaklingar hafa sem múginn mynda. Múgurinn getur hins vegar orðið svo hávær, ofstopafullur eða fjölmennur, að yfirvöld þora ekki að taka á lögbrotum, og afsaka það fyrir sjálfum sér með því, að gæta verði þess að „ekki sjóði uppúr“, og í því skjóli skáka þeir sem reyna að espa upp múg og beita honum fyrir vagn sinn. En hópur manna hefur ekki meiri almenna rétt en hver einstakur maður í hópnum og lög og regla hætta ekki að gilda þótt margir komi saman og myndi hávaða. Almennir borgarar verða að geta treyst því, að sama regla gildi um ofbeldismenn sem beita sér í skjóli múgs og þá sem láta sér nægja að starfa í fáförnum húsasundum.