Fimmtudagur 29. júlí 2010

210. tbl. 14. árg.

H venær gerðu framkvæmdastjórn Evrópusambandsins eða eftirlitsstofnun EFTA athugasemd við „innleiðingu“ tilskipunar framkvæmdastjórnarinnar um innstæðutryggingar á Íslandi?

Hið rétta er að fyrirbærið Eftirlitsstofnun EFTA hefur ekki enn gert það og framkvæmdastjórnin gerði það nú í vikunni. Um leið lýsti framkvæmdastjórnin því yfir að í tilskipuninni væri engin skipun um ríkisábyrgð á tryggingakerfinu. Það er út af fyrir sig gott að hafa það skýrt og tært úr uppsprettu tilskipunarinnar. En hvers vegna í fjáranum var ekki búið að fá þetta svar frá höfundi tilskipunarinnar fyrir lifandi löngu?

Þarf einhverja norskra fréttaveitu til að koma þessu á hreint? Eða verður þetta kannski allt dregið til baka á morgun þegar einhverjir fara að skjálfa yfir því að ríkisábyrgðin sé ekki til staðar?

Evrópusambandið treysti sér ekki til að lýsa því yfir að engin ríkisábyrgð væri til staðar fyrir tæpum tveimur árum. Nógu margir voru samt búnir að setja evrurnar sínar undir koddann. Sambandið lét sér í léttu rúmi liggja þótt Íslendingar sætu undir því að vera svikahrappar sem „hlypust frá skuldbindingum sínum“.

Ef þetta er rétt eftir framkvæmdastjórninni haft þá lét hún Íslendinga engjast um í nær tvö ár og sitja undir ríkisábyrgðarþvælunni úr Bretum, Hollendingum og Eftirlitsstofnun EFTA án þess að hreyfa legg né lið.

Ef þetta er svona þá er það næg ástæða út af fyrir sig til að slíta viðræðum um aðild Íslands að sambandinu.