S jálfstæðisflokkurinn náði hreinum meirihluta í bæjarstjórn Árborgar í kosningum í vor. Yfirlýsingar oddvita listans um áherslur eftir kosningar voru mjög ánægjulegar. Leggja átti áherslu á taumhald í rekstri bæjarins. Eitthvað hefur Vefþjóðviljinn misskilið þessi fyrirheit um að koma böndum á mál hins gjaldþrota bæjarfélags því fyrstu fréttir af störfum hins nýja meirihluta voru af tilraunum hans til að banna lausagöngu katta en ef þetta gefst vel verður flugum í Árborg bannað að setjast á mat.
Svonefnd fréttastofa Ríkisútvarpsins sagði svo frá:
Allir kettir í Sveitarfélaginu Árborg, sem fara út úr húsi verða framvegis í bandi samkvæmt nýrri kattareglugerð. Ragnar Sigurjónsson, dýraeftirlitsmaður sveitarfélagsins, segir þetta nauðsynlegt þar sem lausaganga katta á svæðinu hafi verið mikið vandamál. Hann segir kattaeigendur ekki hugsa nægilega vel um ketti sína og því sé nauðsynlegt að koma þeim í band líkt og þekkist með hunda. Eigandi Depils, 8 ára kattar á Selfossi, fagnar nýju kattareglugerðinni en Depill hefur verið í bandi síðan hann var kettlingur. |
Ríkisútvarpinu tókst þarna ekki aðeins að ræða við fulltrúa stjórnvaldsins sem ætlar að koma böndum á ketti heldur einnig að fá vitnisburð eina mannsins á landinu sem hefur stundað bindileiki með kettinum sínum. Hann var talinn besti fulltrúi kattaeigenda í þessu máli.