Helgarsprokið 1. febrúar 2009

32. tbl. 13. árg.

S ú ríkisstjórn sem nú er í burðarliðnum lætur hátt um að strax þurfi að grípa til aðgerða til að „bjarga heimilunum“. Nú mætti ætla að þetta þýði að umrædd ríkisstjórn ætli að halda áfram á þeirri vegferð fráfarandi ríkisstjórnar að koma gjaldeyrisviðskiptum í einhvers konar lag og skera niður ríkisútgjöld til að mæta því Ginnungagapi sem er í fjárlögunum, enda ljóst að „efnahag heimilanna“ verður best borgið með því að bjarga því að hér á landi verði einhver efnahagur til að reka heimili í.

„Þá, rétt eins og nú, safnaði forseti Bandaríkjanna saman „bestu“ og „gáfuðustu“ hagfræðingum samtímans til ráðuneytis um hvernig ríkisstjórnin skyldi bregðast við vandanum. Þá, rétt eins og nú, virðist spurningin eingöngu hafa verið hvernig, en ekki hvort, ríkisstjórnin skyldi blanda sér í málið. Og þá, eins og nú, virðast hinir góðu, gáfuðu ráðgjafar nær allir hafa verið sammála um að ríkið skyldi nota almannafé til að eyða sér leið út úr vandanum.“

Þegar rýnt er í hvað er í raun átt við með froðunni „bjarga heimilunum“ kemur hins vegar í ljós að á íslensku þýðir þetta ný ríkisútgjöld til að borga niður skuldir þeirra sem hafa tekið hvað mesta áhættu í lántökum á liðnum árum. Nú á að verðlauna þá sem skuldsettu sig á kaf til að kaupa sér stærra húsnæði án þess að eiga borð fyrir báru til að taka á sig vísitöluhækkun á verðtryggðum lánum sínum eða sveiflur í gengi krónunnar. Ef gósentíð undanfarinna ára leiddi til þess að hópur fólks lét glepjast út í slíkar „fjárfestingar“ sem það réð ekki við, þá ætlar viðtakandi kreppustjórn svo sannarlega að sjá til þess að slík hegðun verði verðlaunuð sérstaklega, með því að láta þá sem ekki eyddu og spenntu blæða duglega í kreppunni til að borga skuldir þeirra fyrrnefndu.

En hin viðtakandi kreppu-skammtíma-minnihluta-stjórn er hvorki ein um að sjá kreppu sem tilefni til að skrúfa nú rækilega frá ríkisútgjaldakrananum, né er hún ein um að eiga í vandræðum með að kalla hlutina réttum nöfnum. Vestan hafs er nú miðjustjórn, á íslenskan mælikvarða. Fyrri stjórn var þegar farin að ausa duglega úr ríkiskassanum, einkum með svonefndri TARP áætlun, sem skyldi kosta um 700 milljarða bandaríkjadala. TARP þetta stendur fyrir „Troubled Assets Relief Program“, það er að segja áætlun um að kaupa um eignir í vandræðum. Á íslensku myndi það heita áætlun um að ausa skattfé í að kaupa verðlitlar eignir. Hin nýja ríkisstjórn vill hins vegar ekki verða eftirbátur þeirrar gömlu og er búin að setja saman spánýja áætlun, upp á rúmlega 800 milljarða bandaríkjadala, til viðbótar þeirri gömlu. Sú hugmynd Keynes lávarðar að hægt sé að eyða sér leið út úr kreppu lifir því góðu lífi enn í dag.

Vef-Þjóðviljinn hefur fjallað um hvernig kenningar Keynes lávarðar urðu undir í samkeppni hugmyndanna á síðari hluta 20. aldar. Það er því athyglivert að skoða hvað veldur því að kreppueyðsluhugmyndir hans njóti nú endurnýjaðra lífdaga. Ein af þeim orsökum sem þar hafa verið nefndar til sögunnar er það hve afleiðingar mistaka í hagstjórn geta sumar hverjar tekið langan tíma að koma í ljós. Í bók sinni, The Great Inflation and Its Aftermath: The Past and Future of American Affluence, rekur blaðamaðurinn Robert J. Samuelson meðal annars hversu kreppueyðsla ríkisstjórnar John F. Kennedy hafði langvinn og skaðleg áhrif á efnahagslíf Bandaríkjanna, einkum með því að framlengja um mörg ár þá kreppu sem þá var við að etja.

Þá, rétt eins og nú, safnaði forseti Bandaríkjanna saman „bestu“ og „gáfuðustu“ hagfræðingum samtímans til ráðuneytis um hvernig ríkisstjórnin skyldi bregðast við vandanum. Þá, rétt eins og nú, virðist spurningin eingöngu hafa verið hvernig, en ekki hvort, ríkisstjórnin skyldi blanda sér í málið. Og þá, eins og nú, virðast hinir góðu, gáfuðu ráðgjafar nær allir hafa verið sammála um að ríkið skyldi nota almannafé til að eyða sér leið út úr vandanum. Með því yrði amerískum heimilum „bjargað“ og atvinnuleysi „afstýrt“. Af hlaust mesta verðbólguskeið í seinni tíma sögu Bandaríkjanna, sem framlengdi kreppuskeiðið varlega áætlað um vel á annan áratug. Á því skeiði reyndi Seðlabanki Bandaríkjanna ítrekað að slá á verðbólguna og af hlaust aukið atvinnuleysi og dýpri efnahagslægðir á árunum 1969, 1970, 1973 og 1975. Það var svo ekki fyrr en með stórbættu aðhaldi í ríkisfjármálum snemma á níunda áratugnum sem efnahagslífi Bandaríkjanna gafst loks svigrúm til að rífa sig upp úr hinni viðvarandi efnahagslægð.