Ádögunum var tilkynnt að eigendur Flugleiða hefðu ákveðið að ráða unga konu til forstjórastarfs. Konu sem ekki hafði ýkja langa reynslu af starfi hjá flugfélagi, en sem eigendurnir greinilega bera traust til. Þessi ráðning mæltist vel fyrir, ekki síst hjá Morgunblaðinu sem fagnar óskaplega öllu því sem konur gera og segja þótt konur hafi lítið að segja um það sem gerist á Morgunblaðinu. Enginn virtist velta fyrir sér að sjálfsagt hefðu ýmsir aðrir starfsmenn Flugleiða, jafnvel menn með áratuga reynslu, komið til greina í starfið. Á það var ekki einu sinni minnst. Oft er nefnilega gott að fá fólk utanað, en með ferskleikanum þykir það geta unnið það upp sem aðrir hafa fram yfir það í reynslu. Og eigendur félagsins, sem vitaskuld eiga mikið undir því að félaginu verði vel stjórnað, þeir treysta sem sagt þessari ungu konu best og ráða hana. Ljómandi gott.
Auðvitað dettur engum í hug að önnur atriði hafi ráðið úrslitum. Það hvarflar vitaskuld ekki að nokkrum manni annað en þessi unga kona hafi verið valin vegna þess að eigendur félagsins hafi í raun talið það best fyrir félagið og fjárfestingu sína. En hvernig ætli standi á því, að jafnvel sömu aðilar – eins og til dæmis Morgunblaðið – sem fagnað hafa óskaplega því að þessi, til þess að gera, reynslulitla kona hafi verið ráðin forstjóri Flugleiða, geti ekki einu sinni ímyndað sér að einhver sömu sjónarmið hafi getað ráðið förinni hjá útvarpsráði og útvarpsstjóra á dögunum þegar ráðinn var fréttastjóri Ríkisútvarpsins? Þar var ráðinn ungur maður, litlu eldri en hinn nýi Flugleiðaforstjóri, þrátt fyrir að ýmsir menn með langan starfsaldur hefðu vissulega komið til greina. Hvernig stendur á því, að allir fagna því þegar einkafyrirtæki ræður reynslulítinn en efnilegan forstjóra, en sömu menn telja ekkert annað en starfsáratalningu geta komið til greina þegar Ríkisútvarpið ræður sér fréttastjóra?
„Já en einkafyrirtæki mega gera það sem þeim sýnist, ríkisstofnun verður að velja þann hæfasta“, segir þá kannski einhver. Og heldur þá í raun því fram að eigendur Flugleiða hafi ekki valið þann einstakling sem þeir töldu hæfastan, heldur bara einhvern jólasvein sem þeir höfðu í raun enga trú á. Einkafyrirtækjum, þar sem menn hætta yfirleitt eigin fé, þeim dettur ekki í hug að hæfni ráðist af hinum áþreifanlegu atriðum sem hæfnisnefndir ríkisins – að ekki sé minnst á stórlega ofmetna stofnun eins og umboðsmann Alþingis – eru svo hrifnar af. Hinn eilífi talningar-samanburður umsækjenda um opinber störf – eigendum einkafyrirtækja dettur ekki í hug að efna til hans. Enda segir hann lítið sem ekkert um raunverulega hæfni. Endalaust nám, jafnvel með glæsilegum vitnisburði, segir ekkert um að maður valdi embætti eða starfi. Löng starfsreynsla sannar ekkert heldur. Maður verður ekki „fagmaður“ af því einu að hafa verið lengi á sama stað. Eða af því að hafa skrifað bók eða grein. Þegar kemur að því að velja fólk í mikilvægar stöður, þá á sá sem ræður einfaldlega að láta innsæið ráða. Það er hrein vitleysa að ætlast til þess að hann sanni fyrir einhverri nefnd eða þinginu eða einhverjum að hann hafi í raun ráðið „hæfasta“ manninn. Slíkt er frá almennu sjónarmiði ekki hægt.
Eins og áður segir, þá dettur eigendum einkafyrirtækja ekki í hug að nota hæfnisnefndavinnubrögð hins opinbera þegar ráðið er í æðstu stöður. Það skiptir þá nefnilega öllu að fá besta fólkið. Þess vegna velja þeir svo oft fólk sem aldrei slyppi í gegnum hæfnisnefndinar, fólk sem umboðsmaður Alþingis myndi aldrei láta sér til hugar koma að ráða. Hjá eigendum einkafyrirtækja skiptir efnið öllu. Hjá kerfiskörlum hins opinbera skiptir formið öllu. Þó opinberir stjórnendur séu væntanlega líka að leita að almennilegu fólki, þá er annað sem skiptir þá jafnvel meira máli. Þeir vilja sleppa við stjórnsýslukærur og þeir vilja losna við álitin frá umboðsmanni Alþingis. Þess vegna leita þeir að fólki sem getur smogið í gegnum nálaraugu stjórnsýsluréttarins. Ef það fólk reynist líka vera nothæfir starfsmenn, þá er það kostur.