Föstudagur 18. mars 2005

77. tbl. 9. árg.

Ábaksíðu Morgunblaðsins á laugardaginn gaf að líta frétt sem er því miður nokkuð dæmigerð fyrir fréttir af umhverfismálum. Í fyrirsögninni sagði að það væri hvorki meira né minna en „mengunarský yfir borginni“. Í myndatexta sagði svo að mengunskýið mætti „rekja til mikils magns af svifryki í lofti“. Já ljótt er það. Mengunarský og mikið svifryk í lofti. Þetta hljómar ekki vel. Ætli sé óhætt að fara úr húsi án eiturefnagrímu?

Í meginmáli fréttarinnar neitaði Lúðvík Gústafsson, deildarstjóri mengunarvarna á umhverfissviði Reykjavíkurborgar, því hins vegar að fólki stafi hætta af þessu mengunarskýi. Hann mælir þó ekki með því að fólk sem er viðkvæmt fyrir í öndunarfærum fari að skokka við helstu umferðargötur þegar ástandið er svona eins og það hefur verið undanfarna daga þegar þurrt og stillt er. Lúðvík getur þess jafnframt að mengunin felist fyrst og fremst  í svifryki sem stafi af uppþyrluðu göturyki en einnig hafi útblástur frá bílum átt þátt að máli.

Vefþjóðviljinn hefur áður sagt frá rannsóknum sem gerðar hafa verið á uppruna svifryksins í Reykjavík. Eins og Lúðvík Gústafsson sagði í Morgunblaðinu er mestmegnis um að ræða uppspænt malbik (55%), jarðveg (25%) og salt (11%). Aðeins 7% svifryksins reynast vera úr útblástursrörum bíla. Það stendur því upp á Reykjavíkurborg ef menn vilja draga úr svikryki í borginni. Borgin þarf að halda götunum hreinum svo menn losni við uppþyrlaða rykið af þeim.

Ætli margir þeirra sem sáu baksíðu Morgunblaðsins á laugardaginn og skoðuðu aðeins fyrirsögn og myndatexta hafi áttað sig á því að annars vegar er „mengunarskýið“ til þess að gera meinlaust og í öðru lagi stafar skýið ekki frá bílum borgarbúa heldur götum borgarinnar? En fréttir af umhverfismálum þykja víst ekki fréttir nema eitthvað kvíðavænlegt komi fram.

Menntamálaráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga um Ríkisútvarpið sf. Félagarnir Marx og Engels hefðu líklega kosið að kalla þetta plagg ávarp fremur en frumvarp en verið sáttir að öðru leyti. Hvað væri líka öðruvísi í þessu frumvarpi ef Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson hefðu lagt það fram? Jú þeir myndu líklega vilja að meirihluti stjórnar Ríkisútvarpsins yrði kosinn af minnihluta Alþingis en ekki meirihlutanum eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Annað ekki. Enda er ekki verið að breyta neinu sem máli skiptir með þessu frumvarpi nema Ríkisútvarpinu verður gefinn lausari taumurinn til að herja á einkarekna fjölmiðla og seilst verður enn dýpra í vasa skattgreiðenda. Að öðru leyti verður þetta sami ríkisreksturinn og verið hefur frá árinu 1930 þegar Ríkisútvarpið og Kommúnistaflokkur Íslands voru stofnuð.