Þ að munu fáir Íslendingar hafa sent frá sér meira lesmál undanfarin fimmtíu ár eða svo, en Matthías Johannessen. Bækur hans skipta tugum, ljóð, skáldsögur, hugleiðingar, viðtöl, leikrit og svo framvegis. Meðfram þessu var Matthías svo ritstjóri Morgunblaðsins í fjörutíu ár, svo sitt af hverju hefur honum legið á hjarta. Og gerir enn, ef marka má nýjustu bók hans, Málsvörn og minningar, sem nýkomin er út. Titill bókarinnar lýsir innihaldinu nokkuð vel, Matthías rifjar upp fjölmargt frá liðnum árum, hugsar upphátt, rekur dagbókarskrif sín og bréf sem sér hafa borist, og gerir grein fyrir viðhorfum sínum til margs, ekki síst menningarmála og trúmála. Á 530 síðum fer Matthías úr einu í annað, frumbirtir meira að segja nokkur ljóð eftir sig og fjallar um heimsþekkt fólk eins og Michael Jackson, Madonnu, Díönu Spencer og móður Teresu og fólk sem hann sjálfur hefur kynnst eins og Jón úr Vör – birtir bréf frá honum meðal annars – Davíð Stefánsson, Bjarna Benediktsson, Kjarval, Tómas, Stein, Gunnar, Jónas Svafár, Halldór Laxness og Ása í Bæ, svo nokkrir séu nefndir.
Vinstrimenn glöddust ekki þegar Steinn Steinarr birti ljóð í Stefni, tímariti Sambands ungra sjálfstæðismanna. |
Steinn Steinarr fær talsvert pláss í bókinni, enda kynntust þeir Matthías allvel. Matthías var um tíma ritstjóri Stefnis, tímarits Sambands ungra sjálfstæðismanna og segir að það hafi farið í taugar vinstri manna að verið væri að fjalla um menningarmál í slíku tímariti. Millistéttin hefði „helzt orð á sér fyrir að vera einhvers konar ómenningarlegur verzlunarlýður, sem ætti ekkert takmark annað en fyrirheit pyngjunnar. Og því ekkert tilkall til andlegrar virðingar.“ Matthías segist hafa hafnað þessari kenningu og vitað „sem var, að borgarastéttin átti rætur í gróinni menningu, ekki síður en alþýða Íslands á öllum öldum og höfðingjar fortíðar eins og sturlungaraldarmenn.“ Matthías fór til Steins og bað hann um ljóð í Stefni. Og fékk ljóð. „Það má rétt ímynda sér hvílíkt mál það var að fá kvæði hjá Steini til birtingar. Þá hafði hann ekki látið kvæði frá sér fara um nokkurt skeið. En þetta olli engri sérstakri gleði í röðum vinstri manna, þvert á móti. Ég held þessi ákvörðun Steins hafi verið frá hans hendi meiriháttar yfirlýsing um það að hann væri orðinn leiður á pólitísku vafstri og vildi sýna svart á hvítu, að enginn ætti hann öðrum fremur,“ segir Matthías.
Matthías segir margt af Steini og rifjar meðal annars upp kunna sögu af banalegu Steins:
Þegar Steinn lá á Hvítabandinu sagði hann mér sögu af séra Sigurbirni byskupi. Sonur Sigurbjörns hafði verið skorinn upp við botnlangabólgu, minnir mig, og lá þarna á næstu grösum við Stein. Byskup var að heimsækja son sinn og talaði þá einnig við Stein. Eitt sinn hafði hann kvatt og var kominn út úr stofunni þegar hann sneri við, stakk höfðinu inní dyragættina og spurði Stein, hvort hann gæti ekki gert eitthvað fyrir hann. Jú, sagði Steinn, þakka þér fyrir, en ekki alveg strax! |
Matthías heimsótti Stein oft undir það síðasta og hann og Jón úr Vör glöddu Stein meðal annars einu sinni með því að færa honum espresso-kaffi frá Uppsölum, neðst í Túngötu, þar sem Steinn hafði oft komið. Umfjöllun sinni um Stein lýkur Matthías á þessum orðum: „Ég veit ekki hvort hann kveið dauðanum, það veit enginn. En hann tók honum vel og karlmannlega eins og öðru. En samt dó hann óglaður, þótt annað hafi verið sagt.“
Matthías nefnir ekki hvar það hafi verið sagt, en á hér vitanlega við minningarorð Halldórs Laxness um Stein.
Af Jóhannesi Kjarval segir Matthías meðal annars litla sögu og hefur hana eftir Ragnari Jónssyni í Smára.
Kjarval var við nám í Englandi, vantaði peninga. Hann bjó hjá enskum karli sem bað hann mála húsið sitt. Kjarval vildi fá fyrirframgreiðslu, sem karlinn sagðist ekki mundu borga fyrr en hann skilaði myndinni. Karlinn bað Kjarval setja sig á tröppurnar fyrir framan húsið. Kjarval lofaði því. Svo málaði hann myndina og afhenti karlinum. Hvað er þetta, sagði karlinn og virti fyrir sér myndina, ég er ekki á tröppunum. Nei, sagði Kjarval, þú ert inni að sækja peningana! |
En það er margt annað en skemmtisögur í Málsvörn og minningum. Matthías fjallar meðal annars um fjölmiðla og þá einnig Morgunblaðið sem hann stýrði svo lengi:
Það eru takmörk fyrir því, að sjálfsögðu, hvað er birtingarhæft og hvað ekki. Fjölmiðlar eiga ekki einungis að túlka samtímann, heldur einnig að veita honum aðhald. En á því er einnig misbrestur. Þannig töluðu tveir dagskrárgerðarmenn á FM 95,7 um að hægt væri að skjóta forsætisráðherra gegnum glugga á stjórnarráðinu! Var það tilviljun þarna í miðjum leðjuslagnum um fjölmiðlafrumvarpið svokallaða? Eða héldu mennirnir kannski að þetta væri eigendum stöðvarinnar þóknanlegt og í anda þeirrar innri ritskoðunar sem viðgengst á fjölmiðlum, hvað sem líður skýjaglópum og fullyrðingum þeirra um algjört frelsi þar á bæjum!! Morgunblaðið birti 3. maí 2004 grein eftir nafngreinda konu þar sem Davíð Oddssyni, forsætisráðherra, er líkt við Adolf Hitler. Það er vesalt aðhald og minnkaði ekki Davíð, heldur konuna – og þá ekki síður blaðið, en ég þykist vita að birting þessarar greinar hafi verið slys. Í greininni segir hún m.a.: „Það er auðséð að Davíð á bara bágt. Manni stendur stuggur af andúðinni og grimmdinni sem skín úr öllu andlitinu á manninum þegar hann birtist á skjánum … og er því best að hann komi þar sem sjaldnast. Minnið reikar til Þýskalands á stríðsárunum. Þar var maður, ef mann skyldi kalla, eftir gerðum hans að dæma var hann vart maður…!“ |
Já það kemur margt í ljós þegar stóryrðin og lætin síðasta vor verða rifjuð æsingalaust upp. Það er ýmislegt í íslenskum stjórnmálum og þjóðmálasnakki, sem er ekki of skemmtilegt. Um eitthvað af því á kannski við það sem Matthías segir á einum stað í bók sinni: „Í stjórnmálaþrasinu er viðstöðulaust reynt að setja kampavínsmiða á edikflöskur, það heitir kosningabarátta, og Benedikt frá Auðnum talaði um botnvörpur til að veiða í skrílhylli.“
Fyrst minnst er á fjölmiðlalagamálið þá má geta þess að Matthías rifjar í bókinni upp bréf sem hann skrifaði í Morgunblaðið til að andmæla sumu af því vitlausasta sem gasprað var í sumar um einn ógeðfelldasta anga þess máls, svokallaða lagasynjun Ólafs Ragnars Grímssonar. Í bréfinu vitnaði Matthías til samtals síns við dr. Bjarna Benediksson, sem var einn helsti stjórnskipunarréttarsérfræðingur Íslands – og rétt er að taka fram að slíkur dómur átti í raun við um Bjarna, öfugt við það lið sem ákveðnir fjölmiðlar sæmdu þeim titli síðastliðið sumar þegar álit þess hentaði – og kom mjög að samningu stjórnarskrárinnar, sem annar hver maður vissi í sumar hvernig átti að túlka:
Bjarni Benediktsson segir í samtali okkar: „Ástæðan til þess (að ákvæðið um þjóðaratkvæðagreiðslu var sett inn í stjórnarskrána) var sú, að þegar verið var að semja frumvarpið að lýðveldisstjórnarskránni var utanþingsstjórn, sem meirihluti alþingis undi mjög illa, þó að ekki væri hægt að ná samkomulagi um þingræðisstjórn. Með réttu eða röngu töldu margir þingmenn, þar á meðal ég, að þáverandi ríkisstjóri hefði við skipan utanþingsstjórnarinnar farið öðruvísi að en þingræðisreglur segja til um. Menn óttuðust þess vegna, að innlendur þjóðhöfðingi kynni að beita bókstaf stjórnarskrárinnar á annan veg en konungur hafði ætíð gert frá því landið fékk viðurkennt fullveldi 1918 – og þar með taka afstöðu með eða móti lagafrumvörpum, alveg gagnstætt því sem ætlast er til í þingræðislandi, þar sem staðfesting þjóðhöfðingjans á gerðum löggjafarþings er einungis formlegs eðlis. Menn vildu ekki eiga það á hættu að forseti gæti hindrað löglega samþykkt Alþingis með því að synja henni staðfestingar, heldur tæki lagafrumvarp engu að síður gildi, en vald forseta yrði takmarkað við það eitt að geta þá komið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Þetta ákvæði skýrist þess vegna eingöngu af því tímabundna ástandi sem hér ríkti á árunum 1942-44 og hefur reynslan síðan bent til þess að þessi varúð þingsins hafi verið ástæðulaus. Ekki er kunnugt, að forseta hafi nokkru sinni komið til hugar að stofna til þess glundroða, sem af því myndi leiða, ef hann ætlaði að hindra Alþingi í löggjafarstarfi þess.“ |
Já það er svolítið meira vit í þessu en þvaðrinu sem haldið var að fólki í sumar um að forsetinn „vísaði málinu til þjóðarinnar“, að ekki sé minnst í enn vitlausari kenningu um að „málið væri hjá þjóðinni“ og þar með gæti alþingi ekki einu sinni breytt eða fellt úr gildi hin „synjuðu“ lög. Forseti vísar ekki lögum til þjóðarinnar. Ákvæðið um þjóðaratkvæðagreiðslu var eingöngu sett inn, sem öryggisventill tortrygginna sem töldu Svein Björnsson til alls vísan og jafnvel þess að grípa og misnota vald sem honum væri í raun ekki falið.
En jæja, best að hugsa um eitthvað annað. Matthías hitti Sigurð Guðmundsson landlækni við athöfn í Háskólanum og minntist landlæknir á nýgerða útför Steingríms St. Th. Sigurðssonar listmálara.
Dauði hans kom mér í opna skjöldu, sagði ég. Þá sagði Sigurður: Dauði Steingríms kom engum jafn mikið á óvart og honum sjálfum!! Hann sagði að Steingrímur hefði lofað veglegri veizlu þegar hann yrði 75 ára, „og hann stóð við það,“ sagði Sigurður, „því að erfidrykkjan fór fram þennan sama dag“. Enginn lifði lífinu með sama stæl og Steingrímur. |
Bók Matthíasar geymir margar slíkar sögur. Og einnig alvarlegar athugasemdir um menn og málefni. Sigurður A. Magnússon fær sínar gusur, en Matthías segir á honum kost og löst, um leið og hann furðar sig á því að hvernig „svona fólk eins og Sigurður kann að gera út á markaðinn – sem það hatar!“, og svo framvegis. Það þarf engum að leiðast yfir Málsvörn og minningum, og þá ekki heldur þegar menn eru ósammála höfundinum. Sennilega við hæfi – og þá einnig í ljósi nýjustu atburða í Mývatnssveit – að ljúka þessum gægjum í bók Matthíasar á sögu sem hann segir af Jóhannesi Kjarval og hefur eftir Davíð Scheving Thorsteinsson sem hafði eftir Ragnari í Smára.
Kjarval hafði alla tíð miklar áhyggjur af vinnslu kísilgúrs við Mývatn. Síðasta skipti sem Ragnar sat hjá honum í Borgarspítalanum náði hann engu sambandi við Kjarval, en lét það ekki á sig fá. Hann talaði viðstöðulaust um dægurmál alls konar án viðbragða frá Kjarval sem var mjög úr heimi hallur. En þá allt í einu rís Kjarval upp við dogg, hvessir á hann augu og segir, Ragnar minn, Ragnar minn, er ennþá tap á kísilgúrnum? Ragnar fullyrti að þessi setning hefði verið hin síðasta sem Jóhannes Kjarval sagði í þessu lífi. |