Björn Lomborg prófessor við Árósaháskóla og höfundar bókarinnar Hið sanna ástand heimsins ritaði grein á vef The Daily Telegraph um helgina undir fyrirsögninni „Björgum heiminum, leiðum loftslagsbreytingar hjá okkur“.
Lomborg segir að þeir sem fundi nú um loftslagsmál í Buenos Aires haldi því fram að okkur beri siðferðileg skylda til að gera baráttuna gegn loftslagsbreytingum að forgangsverkefni. Þeir haldi því fram að baráttan gegn loftslagsbreytingum sé siðferðispróf okkar daga.
Lomborg segir þá hafa rangt fyrir sér. Hlýnun andrúmsloftsins sé vissulega til staðar og skuldinni megi skella á koltvísýring. Hins vegar sýni loftslagslíkönin að við þessu sé lítið að gera. Jafnvel þótt allir, Bandaríkjamenn þar með taldir, stæðu við Kyoto samninginn út öldina væri aðeins verið að seinka hlýnuninni um sex ár í lok aldarinnar. Sú hlýnun sem væri orðin án Kyoto árið 2100 kæmi árið 2106 með Kyoto.
Svo víkur Lomborg að kostnaðinum við Kyoto samninginn. Hann segir kostnaðinn af því að standa við Kyoto samninginn 150 milljarða Bandaríkjadala á ári. Hann segir að Sameinuðu þjóðirnar meti það svo að fyrir helming þessarar upphæðar mætti leysa til frambúðar helstu lífsgæðavandamál heimsins. Með þessum fjármunum megi útvega hverjum einasta manni hreint vatn, brýnustu sóttvarnir, heilsugæslu og menntun.
En bitna ekki loftslagsbreytingar helst á fátækum löndum heimsins? Jú segir Lomborg. En jafnvel svartsýnustu spár Sameinuðu þjóðanna geri ráð fyrir að meðalmaðurinn í þróunarlöndunum verði orðinn betur stæður en við Vesturlandabúar erum nú við lok aldarinnar.
Allar aðgerðir nú gegn loftslagsbreytingum eru því í raun styrkur frá okkur Vesturlandabúum sem verðum fátæk á mælikvarða þeirra sem uppi verða í þróunarlöndunum við næstu aldamót.