Laugardagur 11. desember 2004

346. tbl. 8. árg.

D eyja 400.000 Bandaríkjamenn árlega af völdum offitu? Þar til nýlega hefur hið opinbera í Bandaríkjunum notað þessa tölu í umfjöllun sinni um offitu og afleiðingar hennar, en nú mun stofnun að nafni Miðstöð veikindavarna hafa dregið í land um 20%, að því er segir í grein eftir Radley Balko á vef Cato-stofnunarinnar. Balko segir að þeir sem hafi lengi gagnrýnt þessa tölu telji nær lagi að ætla að hún sé fjórföldun á raunveruleikanum. Vandamálið, segir Balko, er að hræðsluáróður selur. Ef talan sem miðað hafi verið við, 400.000, sé skoðuð náið og greind eftir dauðsföllum og aldurssamsetningu, megi sjá að hún gangi alls ekki upp. Í Bandaríkjunum deyi árlega 2 milljónir manna og 70% þeirra séu yfir 65 ára aldri. Í þeim hópi sé hins vegar lítið um dauðsföll af völdum offitu. Þetta þýði að nánast allir sem deyi undir 65 ára aldri hljóti að deyja af völdum offitu til að dæmið gangi upp.

Balko nefnir fleiri vandamál við þessa tölu og þær aðferðir sem hafa verið notaðar við að finna hana og hljóta að vekja menn til umhugsunar um hversu vandaðar slíkar tölur eru sem notaðar eru í opinberri umræðu. Og ekki aðeins af þrýstihópum og áróðursmönnum heldur einnig af opinberum stofnunum sem eiga að nafninu til að minnsta kosti að vera hafnar yfir það að beita áróðri og blekkingum í málflutningi sínum. Ef grafið er aðeins dýpra í heilsutölfræði Bandaríkjamanna, segir Balko, má sjá að þrátt fyrir víkkandi mittismál hefur þjóðin aldrei verið heilsuhraustari. Hjartveiki, hjartaslagur og æðasjúkdómar hafi fallið verulega á síðustu tveimur áratugum. Þá hafi krabbamein og dauðsföll af þess völdum minnkað á hverju ári síðustu tíu árin. Síðustu fimmtán árin hafi dauðsföllum fækkað vegna níu af tíu algengustu krabbameinunum sem tengjast offitu. Að auki lifum við lengur, segir Balko, en það eina sem hafi versnað á síðustu tuttugu árum sé sykursýki, og hana megi að hluta til að minnsta kosti rekja til öldrunar þjóðarinnar eða breyttra skilgreininga og söfnunar á tölfræði um sykursýki.

Það sem veldur áhyggjum við 400.000 villuna, segir Balko, er að stjórnmálamenn og þeir sem fjalla um næringarfræði skuli styðjast við svo ótrausta tölu þegar þeir berjast fyrir setningu nýrra laga og reglna, og að fjölmiðlar skuli segja frá þessu algerlega gagnrýnislaust.

Þ egar Jóhann Ársælsson, þingmaður Samfylkingarinnar, gerði grein fyrir atkvæði sínu við meðferð skattalækkunarfrumvarps ríkisstjórnarinnar í gær, dró hann í raun gagnrýni Samfylkingarinnar fram í fáum orðum. Jóhann fann tvennt að frumvarpinu. Hann telur að það nýtist aðallega íslenskum auðmönnum. Og hann er óhress með að lækkanirnar komi ekki nógu snemma til framkvæmda.

Já það er eins og venjulega. Maturinn er vondur. Og illa útilátinn.