Fögur er hlíðin svo að mér hefir hún aldrei jafnfögur sýnst, bleikir akrar en slegin tún, og mun eg ríða heim aftur og fara hvergi. |
– Gunnar Hámundarson bóndi á Hlíðarenda í Fljótshlíð. |
Það er að ýmsu að hyggja ef loftslag hérlendis verður jafn hlýtt og það var á landsnámsöld og fagurbleikir kornakrar taka við af iðagrænum túnum. Á dögunum var sagt frá því í blaði að Ísland gæti orðið hvorki meira né minna en „kornforðabúr Evrópu“, án þess að nokkuð bendi til að Evrópu skorti mat eða fóður. Þvert á móti eru öll búr og hlöður full upp í rjáfur. Bæði offramleiðsla á matvælum og ofát þeirra eru vandamál á Vesturlöndum.
Vefþjóðviljinn hefur sagt frá því að þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram lagafrumvarp um að hygla íslenskum landbúnaðarvörum með því að lækka virðisaukaskatt á þeim. Kalla þeir þetta að „lækka matarskattinn“. Hugmynd þessa munu þeir hafa fengið frá Sjálfstæðisflokknum skömmu fyrir síðustu kosningar þegar skoðanakannanir sýndu að hún féll í kramið. En þetta er ekki eina hugmynd Samfylkingarmanna um aukin ríkisafskipti og niðurgreiðslur til íslensks landbúnaðar.
Önundur S. Björnsson varaþingmaður Samfylkingarinnar úr Suðurkjördæmi lagði fyrir ári fram tillögu til þingsályktunar um að ríkið hefji úttekt á stöðu kornræktar á Íslandi. Íslenska ríkið hefur lítið skipt sér af kornrækt hingað til og úr því finnst þingmanni Samfylkingarinnar rétt að bæta.
Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að skipa fimm manna nefnd til að kanna með hvaða hætti megi stórauka kornrækt til fóðurgerðar á Íslandi, þannig að hún verði samkeppnisfær við niðurgreitt innflutt korn. Nefndin geri tillögur um hve mikið korn sé raunhæft að rækta innan lands og hvað þurfi til svo að hægt sé að stunda kornrækt sem aðalbúgrein. Þá leggi nefndin mat á hagkvæmni þess að rækta fóðurkorn á Íslandi og gildi þess fyrir atvinnulífið. |
Í greinargerð með tillögunni segir að kornrækt njóti lítils stuðnings hér á landi. „Efling greinarinnar er þjóðfélagslega hagkvæm bæði þegar litið er til gjaldeyrissparnaðar og landnýtingar. Hún eykur fjölbreytni atvinnulífs í byggðum landsins og atvinnumöguleika bænda að sama skapi. Um leið eru færð störf til íslenskra bænda.“ Já var það ekki? Þjóðhagslega hagkvæmt og gjaldeyrissparandi. Þetta eru lykilhugtök þeirra sem vilja að skattgreiðendur standi undir óhagkvæmri framleiðslu. Í umræðum um tillöguna á Alþingi fóru tveir aðrir þingmenn Samfylkingarinnar í pontu til ýta undir ríkisafskiptin af korninu. Björgvin G. Sigurðsson, einnig af Suðurlandi, tók undir með félaga sínum og notaði sömu haftarökin um gjaldeyrissparnað. „Efling greinarinnar yrði án vafa mjög þjóðhagslega hagkvæm hvort sem litið er til gjaldeyrissparnaðar eða landnýtingar því við höfum gríðarlega mikið af ræktanlegu, frjósömu og góðu landi sem gegnir ekki öðru hlutverki nú um stundir en að vera bithagi fyrir stóð og skepnur hvers konar.“ Hið sama gerði Jón Gunnarsson, já líka úr Suðurkjördæmi.
Það er stórmerkilegt að þegar ný búgrein er að ryðja sér til rúms skuli Samfylkingin leggja að því drög að hún fari í sama ríkisafskiptafarið og flestar aðrar búgreinar.