Ástþór vill nota nútíma tækni til að þróa virkara lýðræði og tryggja að forsetinn sé virkur öryggisventill þjóðarinnar í samræmi við stjórnarskrá. |
– eitt þriggja helstu stefnumála Ástþórs Magnússonar vegna forsetakosninga í sumar. |
Nú virðast Samfylkingin og Ólafur Ragnar Grímsson hafa tekið upp stefnu Ástþórs Magnússonar varðandi forsetaembættið. Í sumar verður kosið um hvor er betri framkvæmdastjóri fyrir stefnu Ástþórs, Ólafur Ragnar eða Ástþór sjálfur. |
Svar Samfylkingarinnar fram að þessu við því að kjósendur hafa ekki treyst henni til stjórnarþátttöku er að réttast væri að færa stjórnina frá Austurvelli til Brussel. Samfylkingarmenn vilja hefna þess í Brussel sem tapast hefur á íslenskum kjörstöðum. Þetta kann þó að vera gagnvirkt; kjósendur hafa ekki heldur treyst Samfylkingunni vegna þess að flokkurinn telur það aukaatriði hvort Ísland verður áfram frjálst og fullvalda ríki.
En nú er komið nýtt svar við áhrifaleysi Samfylkingarinnar. Ef marka má ýmsa Samfylkingarmenn liggur nú beinast við að svonefnt sameiningartákn þjóðarinnar, forseti Íslands, taki sér meiri völd en það hefur áður gert. Og hvernig verður þetta útkljáð? Jú, með kosningu milli Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands og Ástþórs Magnússonar. Síðast þegar þeir áttust við fékk að vísu hvorugur þeirra meiri hluta atkvæða en Ólafur fékk nær 16 atkvæði fyrir hvert atkvæði greitt Ástþóri. Þá fengu þeir frambjóðendur sem sögðust vilja halda forsetaembættinu svo til óbreyttu 97,4% atkvæða. Það eru því engar vísbendingar um það frá kjósendum að þeir vilji miklar breytingar þar á.
Ástþór Magnússon virðist með svipaða stefnuskrá nú og árið 1996 en Ólafur Ragnar Grímsson virðist aftur á móti búinn að varpa þeirra hugmynd fyrir róða að forsetinn eigi að vera sameiningartákn þjóðarinnar. Hann eigi frekar að verða miðpunktur átaka um mál sem eru umdeild á Alþingi. Ólafur hefur því, ásamt Samfylkingunni, fært sig nær Ástþóri hvað þetta varðar. Það er því einn augljós galli á þessu valdabrölti Samfylkingarinnar. Ástþór Magnússon vill ekki síður efna til ófriðar um forsetaembættið en Ólafur Ragnar Grímsson. Það er afar ólíklegt að sterkur frambjóðandi fari fram gegn sitjandi forseta. Það hefur aldrei gerst. Hvern eiga þeir þá að kjósa sem vilja hafa embættið í því horfi sem verið hefur frá stofnun lýðveldisins?