Því nánar sem málið er skoðað því betur kemur í ljós að tekjujöfnun snýst ekki um að færa tekjur frá ríkum til fátækra heldur vald frá einstaklingum til ríkisins. |
– Bertrand de Jouvenel í The Ethics of Redistribution |
Hvað varð um „misskiptinguna“ í þjóðfélaginu? Ekki að hennar sé sárt saknað en það hefur vart verið minnst á hana upp á síðkastið, eiginlega ekki síðan um klukkan 21.59 hinn 10. maí í fyrra. Mánuðina þar á undan var hún afar umtöluð. Sem er út af fyrir sig merkilegt því munur á hag þeirra verst og best settu á Íslandi er minni en víðast hvar annars staðar. Í aðdraganda kosninga er ekki alltaf tóm til að koma að staðreyndum þegar frambjóðendur setja hvaða beitu sem er á kosningaöngulinn.
Ríkið getur auðvitað haft mikil áhrif á hvernig tekjur skiptast milli manna. Sem dæmi má nefna styrki til manna í fæðingarorlofi. Hjón sem hafa hálfa milljón króna hvort í laun á mánuði fá 3,6 milljónir króna í bætur frá Tryggingarstofnun ríkisins ef þau verða fyrir því að eignast barn. Einstæð móðir með 150 þúsund krónur á mánuði fær 720 þúsund. Allir stjórnmálaflokkar á þingi studdu þessa tilhögun og stjórnarandstöðuflokkarnir – sem hafa jafnan mikinn áhuga á að draga úr misskiptingunni – gerðu hlé á andstöðu sinni við stjórnarmeirihlutann til að tryggja frumvarpi um þetta efni sem glæsilegasta niðurstöðu á þingi.
Ríkið getur einnig haft áhrif á það hvað menn fá fyrir tekjurnar. Nú ætlar ríkið að verja ákveðnu fé til að lækka miðaverð á tónleika. Ef misskiptingin væri efst í huga þingmanna þegar þeir ákveða hvert þeir peningar ættu að renna yrðu ópera og sinfónía sennilega ekki fyrir valinu. Ef tekið væri mið af því að draga úr misskiptingunni byði ríkið heldur ekki upp á ókeypis nám í tannlækningum og lögum.
En á tekjujöfnun er önnur hlið því millifærslur ríkisins eru kostnaðarsamar, oft ómarkvissar og draga kraftinn úr þeim sem ríkið jafnar um. Hagfræðingurinn Gordon Tullock orðaði það eitt sinn svo: „Gefum okkur að ríkistjórninni takist að bæta kjör þess fimmtungs sem er verst settur um 50% með því að skattleggja hina. Ef við gerum ráð fyrir að hagvöxtur verði 3% í stað 5% vegna þessarar tekjujöfnunar munu tekjur fátæka fimmtungsins verða lægri eftir 15 ár en án tekjujöfnunar. Og ekki nóg með það, heldur mun fátæki fimmtungurinn halda áfram að tapa á þessu um alla eilífð.“