V
Fjármál Reykjavíkurborgar eru orðin ein allsherjar risastór rækja. |
instri meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur hefur lagt fram frumvarp að áætlun um framkvæmdir og fjármál borgarinnar fyrir árin 2005 til 2007. „Helstu áherslur áætlunarinnar endurspegla metnað borgaryfirvalda til að veita íbúum góða þjónustu á hagkvæman hátt, ábyrga fjármálstjórn og virðingu fyrir skattfé borgarbúa,“ sagði í framsöguræðu með frumvarpinu og þar kom ennfremur fram að greiða ætti niður hreinar skuldir borgarsjóðs um tæpan einn milljarð króna. Nú kann þetta að hljóma ágætlega, en þeir sem þekkja sögu þeirra sem nú stjórna borginni hljóta að vera fullir efasemda. Staðreyndin er nefnilega sú að „virðingu fyrir skattfé borgarbúa“ hafa R-listaflokkarnir hingað til sýnt með því að taka til sín stöðugt meira skattfé og það jafnvel þrátt fyrir hátíðleg loforð fyrir kosningar að lækka skatta á borgarbúa. Með hliðsjón af þessu er ekki óeðlilegt þó að það fari um borgarbúa við fregnir af því að nú eigi jafnvel að leggja sérstaka áherslu á virðingu við skattfé.
Ef litið er til skuldanna er myndin ekki síður dökk. R-listinn hefur verið við völd frá því árið 1994 og allan þann tíma hafa þessir vinstri menn hagað sér í samræmi við þær hugsjónir sínar að þenja út báknið og auka útgjöldin. Afleiðingin er sú að hreinar skuldir borgarinnar, sem voru 4 milljarðar króna árið 1993, stefna samkvæmt áætlun í 68 milljarða króna á næsta ári. Úr 4 milljörðum í 68 milljarða á rúmum áratug! Þetta er ekki slæmur árangur ætli stjórnvöld borgarinnar að slá einhver skuldamet og komast á spjöld sögunnar fyrir slík afrek, en sé ætlunin að reka borgina af einhverri skynsemi og án þess að hækka stöðugt skattana er þetta ekki sérlega hrósverður árangur. Það sem þó er enn verra við þessar áætlanir R-listans um skuldastöðu næsta árs og næstu ára er að ef marka má reynsluna eru afar litlar líkur á að þær standist. Samkvæmt þriggja ára áætlun sem samþykkt var fyrir tveimur árum áttu heildarskuldir borgarinnar að nema 60 milljörðum króna á næsta ári, en áætlunin nú gerir ráð fyrir að þessi tala verði 21 milljarði hærri, eða 81 milljarður króna. Á tveimur árum hafa áætlanir um skuldir næsta árs því hækkað um ríflega þriðjung, sem segir töluverða sögu bæði um skuldasöfnunina og áætlanagerðina. Augljóst má vera að R-listinn hefur algerlega misst tökin á fjármálum borgarinnar. Sem kemur vissulega stórkostlega á óvart, eða er þetta ekki sama fólkið og hefur kafsiglt bæði LínuNet og Tetra Ísland á sama tíma og það rannsakar risarækjueldi hinum megin á hnettinum? Hvernig má það vera að slíkir rekstrarmenn og fjármálaspekúlantar missi tökin á fjármálum Reykjavíkurborgar?