Fimmtudagur 12. febrúar 2004

43. tbl. 8. árg.

Ö

Ef Fréttablaðið og DV „reynast“ vel styður Össur Skarphéðinsson  ekki lög um eignarhald á fjölmiðlum.

ssur Skarphéðinsson var viðmælandi Hallgríms Thorsteinsson á Útvarpi Sögu í gær. Þar var til umræðu hugsanleg lagasetning gegn því að aðilar með mikil umsvif á öðrum sviðum eigi jafnframt fjölmiðla. Það hefur að vonum vakið nokkra undrun að Samfylkingarmenn hafa verið fremur andsnúnir slíkum lögum og helstu rök þeirra eru þau að lögin beinist gegn tilteknu fyrirtæki. Kemur það á óvart að flokkur sem hefur frá upphafi viljað berjast gegn „fákeppni“ með lögum, reglum, boðum og bönnum skuli ekki taka slíkri lagasetningu fagnandi. Eru þær ófáar ræðurnar sem þingmenn fylkingarinnar hafa flutt á þingi um nauðsyn þess að „efla samkeppnisyfirvöld“ með auknum lagaheimildum til að skipta sér af rekstri fyrirtækja, auknum fjárframlögum til Samkeppnisstofnunar og fleiri reglum um hvernig menn eiga að hegða sér í viðskiptum. Þáttastjórnandinn spurði Össur því eðlilega hvernig stæði á því að Samfylkingin væri ekki fylgjandi slíkum lögum. Svar Össurar var að hann vildi sjá hvernig hið nýja fyrirkomulag hjá Norðurljósum „reyndist“ áður en lög yrðu sett.

Hver er nú farinn að gæla við sértækar aðgerðir? Það er eitt að þingmenn vilji setja vitlaus lög um mál, eins og lög um takmarkanir á eignarhaldi á fjölmiðlum væru, en annað að þeir lýsi því yfir opinberlega að þeir ætli að sjá hvernig tilteknir aðilar í samfélaginu „reynist“ áður en ákvörðun er tekin um lagasetningu um málefni þeirra. Hvað ef Gunnar Smári Egilsson og Illugi Jökulsson fá þá flugu í höfuðið að Samfylkingin en ekki Sjálfstæðisflokkurinn sé helsta vandamálið í heiminum? Eða það sem líklegra er, að Össur eigi að víkja sem formaður fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur varaþingmanni þegar hún snýr heim af Evrópunámskeiðinu? Væri það góð „reynsla“ fyrir Össur? Hvað mun ráða því í huga formanns Samfylkingarinnar hvernig hið nýja fyrirkomulag „reynist“ á næstu misserum?

Það er fáheyrt að þingmenn hóti að beita valdi sínu með þessum hætti gegn tilgreindum einstaklingum og fyrirtækjum ef þau „reynist“ ekki vel. Ef þið „reynist“ ekki góðir eigendur fjölmiðla að okkar mati munum við setja lög sem banna ykkur að eiga fjölmiðla!