Framsóknarmenn hafa lengi tekið ríkisafskipti fram yfir einkaframtak og samkeppni á markaði. Lengi höfðu þeir uppi alls kyns heitstrengingar um að venjuleg framleiðslufyrirtæki ættu að vera ríkisrekin. Það er að segja öll nema þau sem störfuðu undir verndarvæng ríkisins sem „samvinnufyrirtæki“ með alls kyns sérréttindi. Og það sem var öllu verra er að drjúgan hluta síðustu aldar voru þeir í aðstöðu til að láta verkin tala. Þegar þeim mistókst þetta ætlunarverk sitt með þeim afleiðingum að einkafyrirtæki komust á legg voru settar upp opinberar stofnanir á borð við verðlagseftirlit og ýmsar skömmtunarskrifstofur til að hafa stjórn á auðvaldinu.
„Samkeppnisstofnun er sem kunnugt er framhaldslíf gömlu Verðlagsstofnunar og þar sitja opinberir starfsmenn sem telja sig hafa skyggnigáfu á sviði viðskipta. Þeir geta bæði séð hvernig átti að reka fyrirtæki, hvernig á að reka þau og hvernig þau munu verða rekin í framtíðinni.“ |
Það er til dæmis ótrúlega stutt síðan Framsóknarmenn voru harðir á því að ríki ræki viðskiptabanka og nú vilja þeir að ríkið auki hlut sinn á lánamarkaði með því að auka þá áhættu sem Íbúðalánasjóði er heimilt að taka með lánveitingum til íbúðarkaupa. Óþarft er að rekja í löngu máli hvernig stefna Framsóknarflokksins hefur leikið íslenskan landbúnað. Flestir landsmenn þekkja það á eigin skinni að þurfa bæði að greiða hærri skatta og hærra matarverð vegna ríkisforsjár- og haftastefnunnar sem Framsóknarflokkurinn hefur staðið dyggan vörð um.
Það eru ekki mörg einkaleyfi til verslunar eftir í landinu. Eitt er þó einokun ríkisins á sölu áfengis. Einkaleyfi ÁTVR á sölu áfengis hefði að öllum líkindum verið afnumið fyrir mörgum árum ef ekki kæmi til andstaða Framsóknarflokksins. Flokkurinn er líka afar tregur til rétta stöðu einkafyrirtækja sem starfa í samkeppni við ríkisfyrirtæki. Ríkisútvarpið lemur aðra fjölmiðla sundur og saman með því að niðurgreiða auglýsingaverð og bjóða í starfsmenn og sjónvarpsþætti með lögbundnum afnotagjöldum. Framsóknarflokkurinn má ekki heyra á það minnst að breytingar séu gerðar á Ríkisútvarpinu sem gera stöðu einkarekinni fjölmiðla bærilegri.
Nú fer svo fram lífleg umræða um að auka þurfi hlut einstaklingsframtaks í skóla- og heilbrigðiskerfinu. Enda geti aukin samkeppni bæði aukið gæði og fjölbreytni ásamt því að það fé sem hið opinbera og einstaklingar leggja í menntun og heilbrigðisþjónustu geti nýst betur. Hverjir skyldu nú draga lappirnar í þeim efnum?
Stjórnmálaflokkar sem hafa setið lengi við völd hafa auðvitað ýmislegt á samviskunni og ofantalin dæmi eru auðvitað engin sönnun þess að Framsóknarflokkurinn sé ríkisafskiptaflokkur ofan í rót. Það segir kannski meiri sögu að dæmi þess að flokkurinn hafi haft frumkvæði að því að auka frelsi í viðskiptum og aflétta skömmtun og einokun eru vandfundinn.
Samkeppnisstofnun er sem kunnugt er framhaldslíf gömlu Verðlagsstofnunar og þar sitja opinberir starfsmenn sem telja sig hafa skyggnigáfu á sviði viðskipta. Þeir geta bæði séð hvernig átti að reka fyrirtæki, hvernig á að reka þau og hvernig þau munu verða rekin í framtíðinni. Ekki nóg með það því þeir telja sig einnig sjá hvaða fyrirtæki verða til í framtíðinni. Hvort tveir eða þrír muni í framtíðinni keppast við að baka ofan í landsmenn og á hvaða verði þeir bjóði bakkelsið. Bjóðist brauðið á of háu verði grípur stofnunin til viðeigandi aðgerða og ekki síður ef brauðið kemst til neytenda á of lágu verði að mati stofnunarinnar. Þá verða einhverjir teknir í bakaríið. Samkeppnisstofnun á það sammerkt með öðrum skömmtunarstofnunun ríkisins fyrr og nú að kúnninn, sem beinir viðskiptum sínum til fyrirtækja að eigin vild, hefur alltaf rangt fyrir sér. Mergjaðri gerast ríkisafskiptin ekki.
Frá því var líka sagt í vikunni að Samkeppnisstofnun hefði hlotið „neytendaverðlaun“ unga framsóknarmannsins í Reykjavík.