Frá árinu 1995 hafa stjórnvöld fylgt þeirri stefnu að örva atvinnulífið með því að lækka skatta á fyrirtæki. Þessi stefna hefur skilað mjög góðum árangri fyrir bæði fyrirtækin og ríkissjóð. Skattstofnar hafa stækkað og tekjur ríkisins aukist þrátt fyrir lægri skatthlutföll. Einstaklingar njóta að sjálfsögðu góðs af því þegar skattar á fyrirtæki eru lækkaðir enda hefur raunhækkun launa líklega aldrei verið meiri í sögu Íslands en einmitt á þessum árum. En hvað með skatta á einstaklingana sjálfa? Eins og fram hefur komið greiða landsmenn nú 24% launa sinna í tekjuskatt en greiddu 17,4% fyrir áratug. Þessi hækkun er ekki síst vegna aukinnar ásælni sveitarfélaga í launaumslög landsmanna en útsvarið er sífellt stærri hluti tekjuskattsins. Það má því segja að einstaklingar bíði nú eftir samskonar hvatningu og atvinnulífið hefur fengið á síðustu árum.
Fjármálaráðuneytið hamrar hins vegar á því þessa dagana að tekjuskattshlutfall einstaklinga hafi verið lækkað um 4% á síðustu árum og þykir greinilega nóg að gert. Það vill hins vegar gleymast að þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp árið 1988 var tekjuskatturinn 35,20% en er nú 38,54%. Hæst fór hlutfallið í 41,98% árið 1997. Skatturinn hækkaði tíu ár í röð eftir að staðgreiðslunni var komið á koppinn. Til að bæta gráu ofan á svart var svo 5% „hátekjuskatti“ bætt ofan á skatthlutfallið árið 1994. Þetta átti að vera tímabundinn skattur og segja má að það hafi gengið eftir því árið 1999 var hann hækkaður úr 5 í 7%! Menn greiða því hæst 45,54% tekjuskatt nú en greiddu „einungis“ 35,20% árið 1988. Að auki greiða menn nú fjármagnstekjuskatt. Þess ber þó að geta að iðgjöld í lífeyrissjóði hafa verið undanþegin staðgreiðslu enda bera lífeyrisgreiðslur nú fullan tekjuskatt við útborgun.
Frá því hátekjuskatturinn var lagður á hefur hann ekki aðeins verið hækkaður úr 5 í 7% heldur hefur frítekjumark hans aðeins verið hækkað um 63% á sama tíma og launavísitala hefur hækkað um 70%. Skatturinn er því bæði hærri og nær til fleiri en áður. En sumir hafa að sjálfsögðu sloppið við þessa skattheimtu eins og gengur. Til dæmis þeir sem hafa verið á þingfararkaupi.
HATEKJUSK_THINGKAUP<!––> <!––> <!––> <!––>