Stundum en því haldið fram að Samfylkingin þurfi traustari forystu til að vinna sér traust meðal þjóðarinnar. Til marks um þetta er gjarna nefnt að formaður Samfylkingarinnar þykir ekki með ístöðumestu mönnum landsins. En það er vinglsháttur víðar innan Samfylkingarinnar en meðal helstu forystumanna. Ágúst Einarsson féll af þingi í síðustu kosningum og var í kjölfarið gerður að „formanni framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar“. Ágúst á ekki aðeins að baki einstakan feril sem flokkaflakkari heldur hefur hann snúist eins og vindhaninn í ýmsum málum.
Vefþjóðviljinn hefur áður rakið sinnaskipti Ágústs í fiskveiðistjórnarmálum en hann var einn helsti stuðningsmaður kvótakerfisins og ritaði prýðilegar greinar því til stuðnings. En Ágúst hefur ekki aðeins skipt um skoðun og flokka eins og sokka heldur á hann það til að boða lög um mál sem hann treystir sér ekki til að fara eftir sjálfur. Þannig vildi hann setja lög um að starfsmenn fái fulltrúa í stjórnum fyrirtækja. Ágúst situr sjálfur í stjórn fyrirtækja en ekki hefur rýmt til fyrir fulltrúa starfsmanna. Ágúst er einnig „formaður framkvæmdastjórnar“ stjórnmálaflokks sem boðar lög um bókhald stjórnmálaflokka en leggur ekkert bókhald fram sjálfur.
Í Morgunblaðinu í gær segir svo frá að Ágúst telji Jón Baldvin Hannibalsson eina ráðherra síðustu aldar sem komist á spjöld sögunnar: „Líklega mun aðeins einn ráðherra tuttugustu aldarinnar geymast í Evrópusögunni en það er Jón Baldvin Hannibalsson vegna framgöngu sinnar í málefnum Eystrasaltsríkjanna. Jafn líklegt er hins vegar þar sem svo stutt er frá þessum atburðum að menn munu ekki viðurkenna strax sess hans í þessum efnum. Það er ekkert nýtt í sögunni að fyrst þurfa menn að safnast til feðra sinna áður en samtíminn viðurkennir þá.“
En skömmu eftir að Jón hafði gengið fram með þessum hætti í málefnum Eystrasaltsríkjanna og einnig átt stóran þátt í þátttöku Íslands í EES gekk Ágúst Einarsson til liðs við Þjóðvaka og leiddi framboðslista hans á Reykjarnesi. Þjóðvaki hafði þau ein áhrif í íslenskum stjórnmálum að Alþýðuflokkurinn – og þar með „eini ráðherrann sem komast mun á spjöld sögunnar“ – hrökklaðist úr ríkisstjórn.