Föstudagur 14. september 2001

257. tbl. 5. árg.

Eins og Vefþjóðviljinn nefndi í gær, þá hafa ýmsir vinstri menn á Vesturlöndum svo gott sem sérhæft sig í því að draga rangar ályktanir af rás sögunnar. Eru þeir orðnir svo færir í þessari list sinni að þeim virðist unnt að beita henni hvenær sem miklir atburðir verða. Meira að segja nýgerð árás á Bandaríkin hefur þeim orðið leiðarljós í leit sinni að hinum algilda misskilningi. Nema þeir séu ekki að misskilja neitt en ætli eingöngu að nýta sér árásirnar til að ná árangri með eitt fjölmargra baráttumála sinna.

Bandaríkjastjórn hefur undanfarin misseri unnið að því að hanna eldflaugavarnakerfi sem geti nýst til að granda hugsanlegum flugskeytum sem skotið sé að Bandaríkjunum. Vinstri menn í Evrópu hafa verið afar reiðir vegna þessa og barist gegn þeim hugmyndum með öllum tiltækum ráðum. Um alla Evrópu hafa vinstri menn undanfarna mánuði mjög hæðst að þeim sem styðja þetta varnarkerfi og spurt hvort mönnum detti í hug að nokkurs staðar séu menn sem hafi í senn vilja og getu til að ráðast að „sjálfum Bandaríkjunum, mesta herveldi heims“.

En þó að ýmsir hefðu álitið að þeirri spurningu hefði verið svarað í þessari viku, þá draga vinstri menn í Evrópu allt aðrar ályktanir. Þeir segja nefnilega hver um annan þveran að nýgerðar árásir sýni einmitt að eldflaugavarnarkerfið sé óþörf vitleysa, það hefði nefnilega ekki getað komið í veg fyrir árásirnar á þriðjudaginn. En hver hefur sagt að þetta eldflaugavarnarkerfi gæti útrýmt öllum ógnum í eitt skipti fyrir öll? Nýgerðar árásir á Bandaríkin sýna öllum skynsömum mönnum að það eru til öflugir hópar sem einskis svífast til að koma höggi á þennan hataða óvin sinn. Þeir menn munu beita þeim ráðum sem þeir telja líklegust til að valda sem mestu mannfalli eða dettur nokkrum í hug að þeir sem héldu um stjórnvölinn á þriðjudaginn myndu hika við að skjóta eldflaugum á Bandaríkin ef þeir ættu þess kost? Hafi eitthvað rökstutt þær fyrirætlanir Bandaríkjastjórnar að verja þegna sína með eins öruggum hætti og kostur er, þá voru það árásirnar á þriðjudaginn.

En þetta skilja vinstri menn á Vesturlöndum auðvitað ekki. Það má meira að segja ímynda sér að ef einhver þeirra færi í bæinn og yrði fyrir því að vasaþjófur næði af honum veskinu að þá myndi vinstri maðurinn hætta að læsa hjá sér húsdyrunum: Slík læsing dygði greinilega ekki til að verjast þjófum.