Hvernig ætli það sé að vera forsvarsmaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands og koma í fjölmiðla og segja það algjört brot á grundvallaratriði og gegn jafnræði, og lögbrot, að fólk greiði fyrir það nám sem það sækist eftir í skólanum? Félagsgjöld í einmitt þetta sama Stúdentaráð eru skilyrði fyrir inngöngu í Háskóla Íslands. Enginn fær að stunda nám við Háskóla Íslands nema greiða Stúdentaráði félagsgjald. Það má með öðrum orðum láta nemendur greiða fyrir eitthvað allt annað en þeir eru að sækjast eftir í skólanum en ekki fyrir námið sjálft.
Ef að það er rétt að Háskóli Íslands megi ekki samkvæmt lögum innheimta gjöld ætti einhver skattgreiðandi að láta á það reyna hvort hann fái ekki hluta af sköttum sínum endurgreidda þ.e. þann hluta sem rennur til skólans ár hvert. Sömuleiðis mættu þeir sem standa utan trúfélaga og eru gerðir að sérstökum gjaldstofni fyrir skólann athuga sína réttarstöðu.
Soffía Kristín Þórðardóttir benti á það í umræðuþættinum Silfur Egils á Skjá 1 í gær að það eina sem sameinað hafi verið á vinstri væng íslenskra stjórnmála séu skuldir A-flokkanna. Margrét Frímannsdóttir tók fátt annað með sér yfir í Samfylkinguna en skuldahalann sem fylgir kennitölu Alþýðubandalagsins. Félagsmennirnir eru hins vegar flestir í VG og stuðningsmennirnir dreifðust á aðra flokka. Þetta minnir óneitanlega á ástandið hjá Kastró Kúbuharðstjóra, sem Margrét reyndi að ná fundum við fyrir nokkru til að fá heilræði; herinn var í Angóla, fólkið á Miami og efnahagurinn í rúst.
Rætt var við Margréti um skuldir Alþýðubandalagsins í Morgunblaðinu 9. maí síðastliðinn og þar víkur hún enn og aftur að því að skuldastaða Alþýðubandalagsins hafi verið fegruð af fráfarandi formanni flokksins árið 1995. Virðist þar hafa skeikað einum 20 milljónum króna. Skuldirnar hafi ekki verið um 30 milljónir króna eins og Ólafur Ragnar Grímsson fráfarandi formaður gaf upp heldur um 50 milljónir króna. Um þetta segir Margrét í viðtalinu við Morgunblaðið: „Þegar ég tók við formennsku árið 1995 voru reikningarnir endurskoðaðir í fyrsta sinn. Þá kom í ljós að skuldirnar voru miklu meiri en talið hafði verið.“
Eins og minnst hefur verið á hér í Vef-Þjóðviljanum hafa félagar í Alþýðubandalaginu skrifað Margréti opin bréf og farið fram á skýringar á þessu 20 milljóna króna misræmi í bókhaldinu en engin svör fengið frá Margréti Frímannsdóttur talsmanni – hinna opnu bókhalda.