Helgarsprokið 21. maí 2000

142. tbl. 4. árg.

Israel M. Kirzner
Israel M. Kirzner

Israel M. Kirzner prófessor í hagfræði við New York háskóla, sem varð sjötugur í febrúar, hefur undanfarna mánuði ritað greinar um meginþætti austurrísku hagfræðinnar í tímaritið Ideas on Liberty (áður The Freeman). Í þriðju greininni sem birtist í marshefti tímaritsins fjallaði Kirzner um viðhorf austurrísku hagfræðinnar til samkeppnishugtaksins. Hvað felst í samkeppni?

Kirzner segir það alltof algengt að hagfræðingar telji að í samkeppnishugtakinu felist að ekkert fyrirtæki hafi burði til þess að breyta verði eða gæðum framleiðslu þ.e. að enginn hafi slíka „ráðandi“ markaðsstöðu. Kirzner segir því í greininni: „Austurrísku hagfræðingarnir leggja annan skilning í samkeppnishugtakið. Þeir hafa aðra skoðun á því hvernig fólk starfar á markaðnum og hvaða reglur eiga að gilda um hann. Þeir telja raunar að hinn viðtekni skilningur á samkeppni sé ekki aðeins gagnslaus heldur beinlínis skaðlegur skilningi á hagfræði. Það er alveg klárt af sjónarhóli austurísku hagfræðinnar að ef menn sækjast eftir því „fullkomna“ ástandi að enginn athafnamaður eða fyrirtæki hafi burði til þess að hafa áhrif á verð og gæði framleiðslunnar stefna menn í raun að því að lama markaðsölfin. Í samræmi við hefð sem nær a.m.k. aftur til Adam Smith hefur austurríska hagfræðin hafnað því að með samkeppnismarkaði sé átt við markað þar sem enginn hafi afl til að láta að sér kveða umfram aðra. Samkvæmt austurrísku hagfræðinni er það samkeppnismarkaður þar sem væntanlegir keppendur mæta engum hindrunum. Með þessum hindrunum er einkum átt við steina sem ríkisvaldið leggur í götu þeirra sem vilja hella sér í samkeppnina.“ 
Í stuttu máli sagt: Samkeppni er ekki kyrrstaða eða ástand heldur hreyfing og breyting fyrirtækja á markaðnum.

Þeir sem leggja hinn viðtekna kyrrstöðuskilning í samkeppnishugtakið vilja oft banna ákveðnar hreyfingar á markaðnum. Kirzner fer yfir nokkur dæmi um þetta í grein sinni.

Samruni (merger) fyrirtækja í sömu grein er illa þokkaður meðal talsmanna samkeppnisreglna. Hvernig getur það verið samkeppni til framdráttar að tvö fyrirtæki í samkeppni verði að einu fyrirtæki? Kirzner segir að austuríska hagfræðin telji samruna vera þátt í samkeppninni. Samruni sé ein aðferð athafnamanna til að lækka kostnað og bæta þjónustu sína þ.e. aðferð til að standa sig betur í samkeppninni. Jafnvel þótt hið sameinaða fyrirtæki sé hið eina í viðkomandi atvinnugrein sé um samkeppni að ræða þar sem hegðun fyrirtækisins hafi áhrif á það hvort ný fyrirtæki helli sér í samkeppnina. Svo lengi sem ríkið hindri ekki aðgang nýrra fyrirtækja að markaðnum geti fyrirtækið ekki hagað sér að vild.

Verðsamráð (price collusion) fyrirtækja er sömuleiðis illa séð á ýmsum bæjum enda miðar það, að því er þjóðsagan segir, að því að hækka verð og féfletta neytendur. Krizner bendir hins vegar á að slíkt samráð bjóði einungis ný fyrirtæki velkomin til leiks. Á opnum markaði ættu ný fyrirtæki að sjá sér leik á borði ef verð er „óeðlilega“ hátt.

Undirboð (predatory price-cutting) er það kallað þegar stórfyrirtæki eru grunuð um að lækka verð tímabundið til að hrekja smærri keppinauta út af markaði og hækka svo verð á nýjan leik. Kirzner segir að raunhæfir möguleikar fyrirtækja á undirboðum af þessu tagi séu vart fyrir hendi. Það sé erfitt fyrir fyrirtæki að meta það hvenær verð hafi lækkað svo mjög að keppinautarnir leggi upp laupana. Þessi kenning um undirboð standist ekki nánari skoðun og ekki sé að finna dæmi í sögunni til að styðja hana.

Þegar á allt er litið kemur svo sem ekki óvart að Kirzner og fleiri frjálslyndir hagfræðingar hafi efasemdir um svonefnd samkeppnislög. Þau eru óþörf þar sem markaður er opinn fyrir nýjum þátttakendum og það á við í öllum tilfellum nema þar sem ríkið (sem setur samkeppnisreglurnar) er sjálft þátttakandi í atvinnurekstri eða hamlar aðgangi nýrra fyrirtækja með sérleyfum, innflutninghöftum, háum sköttum eða tæknilegum hindrunum eins og ströngum heilbrigðisreglum svo nokkur dæmi séu nefnd. Með samkeppnislögum er enda yfirleitt ekki aðeins bannað að hækka verð heldur einnig að bjóða sama verð og aðrir og síðast en ekki síst er bannað að lækka verð „of mikið“! Það er vandlifað við slík lög.