Laugardagur 20. maí 2000

141. tbl. 4. árg.

Á aðalfundi Fiskifélagsins í gær flutti Bjørn Lomborg lektor í tölfræði við Árósarháskóla og höfundur bókarinnar Hið sanna ástand heimsins erindi um efni bókarinnar sem vakið hefur verulega athygli í Danmörku en hún er væntanleg á íslensku innan tíðar. Lomborg, sem var félagi í Greenpeace og trúði áróðri umhverfisverndarsamtaka um að heimurinn sé á heljarþröm vegna mengunar, offjölgunar og auðlindaþurrðar átti bágt með að trúa því sem Julian heitinn Simon hefur haldið fram í bókum á borð við Ultimate Resource. En þar heldur Simon því fram að mengun fari minnkandi og auðlindir séu síður en svo að klárast. Lomborg ákvað því að nota kunnáttu sína í tölfræði til að fara yfir gögnin sem Simon hafði lagt til grundvallar ályktunum sínum og hrekja kenningar hans. Niðurstaðan úr þeirri skoðun er þessi bók sem Simon hefði allt eins getað skrifað!

Í erindi sínu á fiskiþingi í gær sagði Lomborg að ástæðan fyrir því að fjölmiðlar gefi villandi mynd af stöðu umhverfismála sé að fréttir af slæmum hlutum veki meiri athygli en fréttir af því sem gengur vel. Fólki hætti einnig til að alhæfa út frá nokkrum dæmum í stað þess að skoða heildarmyndina. Það komi líka vel í ljós í skoðanakönnunum að því meira sem fólk veit því jákvæðara er það um stöðu umhverfismála. Þannig telur mikill meirihluti ástand umhverfismála í næsta nágrenni við sig vera gott enda þekkja menn það svæði. Hins vegar telur mikill meirihluti að ástand umhverfismála á landsvísu, hvað þá heimsvísu, sé slæmt. Vísindamenn eiga þar að auki hægara með að fá rannsóknarstyrki ef þeir rannsaka meinta aðsteðjandi ógn en eitthvað sem engin hætta er talin stafa af.

Lomborg tíndi til ýmis dæmi um jákvæða þróun í umhverfi okkar síðustu áratugina og aldirnar. Fólksfjölgun sé ekki dæmi um að við fjölgum okkur eins og kanínur heldur um að við deyjum ekki lengur eins og flugur. Nú getum vænst þess að verða 70 -80 ára gömul en ekki 20-30 eins og var allt fram á síðustu öld. Fæðingartíðni hafi lækkað hratt á undanförnum áratugum og því hægt á fólksfjölgun. Hráefnaverð hefur almennt snarlækkað og hráefni eru nú talin duga lengur en nokkru sinni fyrr. Við vinnum auk þess mun færri vinnustundir en áður og erum samt margfalt ríkari. Loftmengun hafi minnkað á Vesturlöndum undanfarna áratugi og aldir og sú þróun hafi farið af stað löngu áður en umhverfisverndarsamtök hófu að selja heimsendaspár.

Það vakti athygli að fáir sjálfskipaðir talsmenn umhverfisverndar mættu á fyrirlestur Lomborgs. Þeir eru ekki ólíkir félögum sínum í umhverfisverndarsamtökum erlendis sem taka fyrir eyrun þegar ræða á um sannleiksgildi hræðsluáróðursins.