Laugardagur 3. desember 2005

337. tbl. 9. árg.

N ú heitir það í munni formannsins að flokkur og forysta séu eitt. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar ber sem sagt ekki lengur ábyrgð á fylgi Samfylkingarinnar. Fylgishrunið er að stórum hluta öðrum flokksmönnum að kenna, sennilega Jóni og Gunnu úti í bæ. Fylgi flokksins hefur nú minnkað í sex könnunum Gallup í röð. Það er komið niður í 25% og hefur lækkað úr 34% frá því Ingibjörg Sólrún velti Össuri Skarphéðinssyni úr stóli formanns í maí á þessu ári. Þetta er út af fyrir sig afrek á ekki lengri tíma og líklega mun betri árangur en nokkur þorði að gera sér vonir um.

Ingibjörg hefur áður reynt að víkja sér undan því að bera ábyrgð á fylgishruni Samfylkingarinnar, nú síðast fyrir nokkrum dögum þegar Fréttablaðið birti könnun sem Vefþjóðviljinn fjallaði um. Þá reyndi hún að halda því fram að þetta ætti sér þá skýringu að flokkar hækkuðu alltaf með nýjum formanni en lækkuðu svo aftur. Þegar rýnt var í tölurnar reyndist þessi skýring ekki ganga upp og þegar horft er til þess að fylgi flokksins hefur ekki verið lægra í rúmlega þrjú ár er þessi skýring orðin enn fjarstæðukenndari. Og þá er það sem stórmennið Ingibjörg Sólrún kennir öðrum um fylgistapið.

Í fréttum í gær var því velt upp í framhaldi af upplýsingum um áframhaldandi fylgistap hvort að það sé rétt að sundrung ríki innan þingflokks Samfylkingarinnar. Ingibjörg Sólrún neitaði þessu alfarið og sagði til dæmis ekkert hæft í því að missætti væri á milli hennar og Margrétar Frímannsdóttur. Hið sama var haft eftir Margréti. Nú er vitað að stjórnmálamenn í sama flokki viðurkenna sjaldnast að missætti sé þeirra á meðal eða innan flokks. En það vita líka allir sem vilja vita að á milli Ingibjargar og sumra annarra þingmanna flokksins, ekki síst á milli Ingibjargar og Margrétar, er mikið ósætti. Þær opinbera ósættið ekki, en til marks um það má hafa harða gagnrýni eiginmanns Margrétar, Jóns Gunnars Ottóssonar, í garð Ingibjargar á flokksstjórnarfundi flokksins í síðasta mánuði. Engum duldist að þar sagði Jón það sem Margrét kýs að segja ekki.