N ýverið gaf bandaríski hagfræðingurinn Mark Skousen út bók um tvo hugmyndastrauma frjálshyggjumanna. Bókin heitir Vienna & Chicago: Friends or Foes? A Tale of Two Schools of Free-Market Economics og fjallar eins og nafnið bendir til um þær tvær stefnur í hagfræði sem kenndar eru við Chicago og Vín eða öllu heldur Austurríki.
Austurríski skólinn, með Austurríkismennina Ludwig von Mises og Friederich von Hayek í fararbroddi, spáði réttilega fyrir um afleiðingar miðstýringar og annars sósíalisma og Chicago skólin, með Milton Friedman og George Stigler sem ötulustu talsmenn, hratt þeirri sókn sem ríkisafskiptasinnar hófu undir merkjum Keynes. Fulltrúar beggja skóla hafa hlotið Nóbelsverðlaunin í hagfræði.
Þrátt fyrir að þessir tveir skólar komi úr sömu átt ef svo má segja og eigi sér sameiginlega andstæðinga greinir þá á um sumt þótt flest eigi þeir sameiginlegt. Í bókinni fer Skousen yfir ágreiningsefnin og ber stefnurnar tvær saman hvað þau varðar. Þótt það sé sjálfsagt meira gagn að því svona yfirleitt að beina spjótunum að raunverulegum andstæðingum er líka hollt að menn reyni sig aðeins við innanbúðarmenn.
„Það er svo vafalaust engin tilviljun að Chicago skólinn hefur notið meiri hylli undanfarna áratugi en sá austurríski, bæði hvað samkeppnismál varðar og flest önnur. Tölvutækni, töflureiknar og tölfræðiforrit hafa gert hagrannsóknir að almenningsíþrótt.“ |
Í fyrsta lagi eru Chicago og Vín ósammála um hvernig menn eiga að bera sig að. Hvernig eiga menn að rannsaka og færa rök fyrir kenningum sínum? Austurríski skólinn hefur lítið sinnt eiginlegum hagrannsóknum en Chicago skólinn hefur aftur á móti slíkar rannsóknir á hagtölum efst á afrekaskrá sinni. Frægasta rannsóknin er án efa rannsókn Miltons Friedmans og Önnu J. Schwartz á sögu peningamála sem leiddi meðal annars í ljós að ástæður Kreppunnar miklu voru fremur ríkisafskipti en skortur á leiðsögn ríkisins. Austurrísku hagfræðingarnir hafa hins vegar hafnað því að verulegu leyti að söfnun og rannsóknir á hagstærðum með aðferðum raunvísindanna séu til gagns þótt austurrískir hagfræðingar á borð við Murray N. Rothbard hafi vissulega nýtt sér þær til að styðja eigin kenningar um til að mynda ástæður kreppunnar. Í stað þess að sanka að sér óljósum hagstærðum og meðhöndla þær í reiknilíkönum eins og hvert annað verkfræðilegt viðfangsefni telja austurrísku hagfræðingarnir að menn eigi fyrst og síðast að líta á sjálfan einstaklinginn, athafnir hans og ákvarðanir. Mises hafnaði því til að mynda að hægt væri að afsanna hagfræðikenningu með því að bera hana saman við hagtölur um liðna tíð. Austurrísku hagfræðingarnir líta því á hagrannsóknir sem tvíeggjað vopn. Hagrannsóknir geti hugsanlega nýst til að styðja við kenningar um frjálsan markað en þeir megi einnig nota gegn frjálsum viðskiptum eins og mörg dæmi séu um
Áhugaverðasta sviðið sem skólana tvo hefur greint á um er án efa samkeppnismál. Önnur ágreiningsefni, eins og fyrirkomulag peningaútgáfu og ástæður hagsveiflu eru ekki jafn spennandi um þessar mundir, en Skousen gerir þeim að sjálfsögðu einnig skil í bók sinni. Hvað samkeppnismálin varðar má í stuttu máli segja að Chicago skólinn hafi fallið á eigin bragði því hagrannsóknir hans hafa leitt hann í átt að þeim austurríska.
Því hefur lengi verið haldið fram af andstæðingum frjálsra viðskipta að frjáls markaður leiði alltaf á endanum til fákeppni, ef ekki einokunar, stórfyrirtækja. Undir þessar hugmyndir tók Chicago skólinn fram af. Hugmyndir um „fullkomna samkeppni“ þar sem mikill fjöldi lítilla fyrirtækja framleiðir nákvæmlega sömu vöruna fyrir kaupendur sem hafa allar upplýsingar um markaðinn hafa verið notaðar til að rökstyðja nauðsyn samkeppnislaga og samkeppniseftirlits á vegum ríkisins. Hayek benti hins vegar á að slíkt kyrrstöðuástand sé andstætt raunverulegri samkeppni því að í raunverulegri samkeppni séu menn sífellt að leita leiða til að vera öðruvísi en keppinautarnir á einhvern hátt, hvort sem er með þjónustu, gæðum eða verði. Austurríski skólinn hefur því alla tíð hafnað hugmyndum um samkeppnislög eða samkeppnisyfirvöld og telur að einu áhyggjuefnin séu forréttindi sem ríkið færir einstökum fyrirtækjum og atvinnugreinum með styrkjum, niðurgreiðslum, tollavernd, tæknilegum viðskiptahindrunum og sérleyfum. Chicago skólinn hefur hins vegar verið á fleygiferð í átt á þeim austurríska í þessum málum Á sjötta áratugnum trúði George Stigler því til að mynda að nauðsynlegt væri að setja bönd á einokunartilburði fyrirtækja á frjálsum markaði og bar jafnvel vitni um það fyrir þingnefnd að nauðsyn bæri til að hluta fyrirtækið U.S. Steel niður. Hann hefur skipt um skoðun. Skousen vitnar í annan Chicago hagfræðing til marks um viðhorfið þar á bæ í seinni tíð: Hagfræðingurinn Gary Becker segir að það „kunni að vera skárra að búa við einokunartilburði einkafyrirtækja en að setja þeim reglur með þeirri pólitísku misnotkun sem það geti haft í för með sér“. Með hagrannsóknum sínum hafa Chicago menn svo rennt frekari stoðum undir þá skoðun að þótt fá og stór fyrirtæki starfi á markaði þá hagi þau sér gjarnan „eins og“ um fullkomna samkeppni væri að ræða. Chicago menn styðjast því enn við kyrrstöðuhugmyndina um fullkomna samkeppni í stað þess að ganga alveg til móts við hugmyndir austurrísku hagfræðinganna um síbreytilegt og óstöðugt ástand á markaðnum. Og Chicago menn vilja sumir enn setja hömlur á lágréttan samruna fyrirtækja og lög gegn verðsamráði. Það er auðvitað kaldhæðnislegt að Chicago skólinn hefur verið að færast nær þeim austurríska í þessum efnum á forsendum eða með aðferðum sem eru austurríska skólanum lítt að skapi, nefnilega hagrannsóknum.
Vefþjóðviljinn hefur alla tíð hallast að sjónarmiðum austurríska skólans hvað samkeppnismálin varðar og telur það óraunhæft að ætla opinberum stofnunum að laga það sem hugsanlega fer aflaga á frjálsum markaði. Það er ákveðin þversögn að keppa að fullkominni samkeppni – þar sem allir búa yfir fullkominni þekkingu á markaðnum – með því að ætla ríkisstofnun að hafa alla þá þekkingu sem dreifð er út á meðan framleiðenda og neytenda.
Það er svo vafalaust engin tilviljun að Chicago skólinn hefur notið meiri hylli undanfarna áratugi en sá austurríski, bæði hvað samkeppnismál varðar og flest önnur. Tölvutækni, töflureiknar og tölfræðiforrit hafa gert hagrannsóknir að almenningsíþrótt. Nú keppast menn við að sýna þróunina á súluritum og draga ályktanir af því. Skífurit hafa leyst skoðanir af hólmi og reiknikúnstir komið í stað röksemda.