Helgarsprokið 4. janúar 1998

4. tbl. 2. árg.

Ólafur Ragnar Grímsson forseti flutti ávarp í fjölmiðlum á nýársdag í samræmi við áratugalanga hefð. Þar vék hann að ýmsu, og þótti mörgum sem hann gengi býsna langt í því að láta í ljós skoðanir sínar á málefnum, sem heyra undir aðra handhafa opinbers valds í landinu. Vissulega hafa fyrri forsetar stundum í ræðum sínum vikið að málefnum, sem þeir hafa ekki beinlínis á verksviði sínu, en það er ekki sama hvernig að því er staðið. Má halda því fram, að Ólafur Ragnar hafi gengið lengra en forverar hans að þessu leyti.

Þessi tilhneiging núverandi forseta var ekki síst áberandi þegar hann vék að umhverfismálum. Varla var hægt að skilja málflutning hans öðruvísi en svo, að hann væri að kveða upp áfellisdóm yfir ráðherrum, einkum umhverfisráðherra, vegna þess hvernig haldið var fram hagsmunum Íslands á nýlegri ráðstefnu í Kyoto. Raunar kom Ólafur fram í hlutverki heimsendaspámannsins i ávarpinu og mátti helst á honum skilja, að á næstu öld myndu ofhitnun og vítislogar breyta gjörvöllum heiminum í eyðimörk nema hvað að hér á landi yrði slíkur fimbulkuldi að jöklar myndu hvarvetna ganga í sjó fram og gera landið óbyggilegt. Vitnaði hann í þessu sambandi til ýmissa ónafngreindra heimildamanna, sem allir voru að sjálfsögðu „meðal fremstu vísindamanna í heiminum“.

Nú vill svo til að þessir heimsendaspádómar Ólafs Ragnars eru allt annað en frumlegir og því eðlilegt að bera þá saman við hina sem á undan komu. Undanfarna áratugi virðist jarðvegur heimsendaspádóma hafa verið óvenjufrjór, a.m.k. hafa spádómarnir verið ófáir, þ.á.m. spá á sjöunda áratugnum um að stór hluti mannkyns létist hungurdauða vegna þess að „baráttan við að fæða mannkynið væri töpuð,“ eins og „virtir vísindamenn“ sögðu í þá daga. Nokkru síðar kom önnur spá og þá átti ísöld að vera að ganga í garð og árið 1975 sagði Newsweek frá því að veðurfræðingar væru „nánast á einu máli um að kuldinn mundi draga úr landbúnaðarframleiðslu það sem eftir lifði aldarinnar.“ Síðan hefur matvælaframleiðsla hins vegar stóraukist og verð matar lækkað.

Þessum áróðri var að nokkru leyti haldið uppi af sömu „virtu vísindamönnunum“ og spá því nú að jörðin sé að hitna og áróðurinn nú er álíka áreiðanlegur og þá. Líkönin sem notuð eru við að spá fyrir um loftslagsbreytingarnar hafa hingað til ekki getað skýrt þær hitabreytingar sem orðið hafa og raunin hefur orðið sú að á meðan þau hafa spáð hækkun hefur hitinn lækkað samkvæmt nýjum mælingum gervitungla sem taldar eru afar áreiðanlegar. Ekki hefur tekist að færa nein sannfærandi vísindaleg rök fyrir því að jörðin sé að hitna og ábyrgir vísindamenn, m.a. sumir þeirra sem fyrst vöruðu við því að hættan á hækkun væri hugsanlega fyrir hendi, hafa lagst gegn því að gripið verði til róttækra aðgerða.

Órökstuddur hræðsluáróður af því tagi sem hér um ræðir er afar alvarlegt mál, sér í lagi þegar forseti landsins kemur honum á framfæri í nýársávarpi til þjóðarinnar. Það er einnig alvarlegt mál að forseti landsins skuli með þessum hætti tala þvert gegn stefnu ríkisstjórnarinnar. Það ætti öllum að vera ljóst, einnig Ólafi Ragnari, að forsetaembættið rekur ekki frekar sérstaka stefnu í umhverfismálum en utanríkismálum og forsetinn er ekki kjörinn til að blanda sér í pólitískt þras heldur er hlutverk hans að vera sameiningartákn þjóðarinnar. 60% þjóðarinnar greiddu núverandi forseta ekki atkvæði sitt og er það síst til þess fallið að treysta stöðu forsetans sem sameiningartákns að blanda sér með þeim hætti í pólitísk mál sem Ólafur Ragnar hefur gert.

Að lokum þykir rétt að benda Ólafi Ragnari og öðrum áhugasömum á mjög athyglisverða grein um þetta efni í jóla- og áramótahefti The Economist. Þar og víða annars staðar má sjá öfgalausa umfjöllun um þessi mál, hafi menn áhuga á að kynna sér þá hlið umræðunnar.