Nú hafa öll fylki Þýskalands komið sér saman um að sjónvarpsstöðvar megi ekki kaupa rétt til að senda út frá stórum íþróttaviðburðum. Stjórnmálamennirnir sem samþykktu þetta telja að ákvörðunin muni gleðja alla knattspyrnuáhugamenn og höfðu líklega ekki fyrir því að hugsa lengra. Atkvæðaveiðarnar verða að þeirra mati að hafa sinn gang. En ætti þetta að gleðja knattspyrnuáhugamenn? Varla ef litið er til þess að knattspyrnufélögin hafa haft verulegar tekjur af sölunni og hún hefur því væntanlega hjálpað knattspyrnunni. Það hlýtur a.m.k. að vera mat forsvarsmanna hennar.
En annað er verra og það er sá misskilningur sem stundum er notaður til að réttlæta svona reglur. Stjórnmálamennirnir virðast álíta að allir eigi rétt á að horfa á tiltekna knattspyrnuleiki í sjónvarpi. Svo er þó ekki. Það eiga hins vegar allir rétt á því að hið opinbera hindri þá ekki í að horfa á knattspyrnuleikina, en á þessu tvennu er mikill munur. Knattspyrnuleikur er einkamál þeirra sem að honum standa og hið opinbera á ekki að hlutast til um það hverjir fá að horfa á. Þannig hafa knattspyrnufélög t.a.m. fullan rétt til að girða í kringum velli sína og selja inn á leikina. Hið nákvæmlega sama á við þótt sjónvarpið sé notað til að koma leiknum til áhugasamra áhorfenda.
Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum láta vinstri menn iðulega sem þeir séu sérstakir áhugamenn um lýðræði þótt flestum finnist að sagan kenni annað. Einn af frambjóðendum Alþýðubandalagsins í hinu „lýðræðislega“ prófkjöri R-listans, Helgi Hjörvar, talar t.d. á þessum nótum í óvæntu glæsiviðtali í helgarblaði Dags-Tímans og er lýðræðisást hans mikil. Mikil lýðræðisbylting átti líka að verða í Reykjavíkurborg eftir valdatöku R-listans 1994, hlustað skyldi á fólkið í borginni ólíkt því sem átti að hafa verið gert í tíð D-lista. Ekkert bendir þó til að lýðræði hafi aukist í borginni og einhverra hluta vegna hafa komið upp mál á þessu kjörtímabili sem ekki hafa þótt sýna lýðræðisástina í verki. Eitt þeirra er grjótnám á Geldingarnesi, en vinnubrögð borgarstjóra í því máli hafa sætt mikilli gagnrýni og þótt bera meiri vott um valdníðslu en lýðræði.
Borgarstjóri hóf verkið áður en borgarstjórn hafði fjallað um málið og því í heimildarleysi. Svo kom það upp á eftir á að grjótnáminu var hafnað á borgarstjórnarfundi vegna þess að einn R-listamaðurinn neitaði að beygja sig undir vilja borgarstjóra. Til að sýna lýðræðisást sína hélt borgarstjóri verkinu áfram þrátt fyrir neitun borgarstjórnar. Var loks boðað til aukafundar í borgarstjórn til að knýja málið í gegn og vildi þá svo heppilega til að hinn óþægi R-listamaður var bundinn af öðrum störfum og gat því ekki mætt til aukafundarins. Og þannig komst málið í gegn. Vera má að þetta sé óskaplega lýðræðisleg málsmeðferð að mati vinstri manna, en þá væri líka til hægðarauka fyrir borgarbúa og landsmenn alla ef þessi tiltekni lýðræðisskilningur kæmi betur fram í máli þeirra í stað hins almenna fagurgala.