Þriðjudagur 6. janúar 1998

6. tbl. 2. árg.

Fyrir nokkrum árum var til siðs hér á landi að ríkisvaldið gripi ótt og títt inn í ef fyrirtæki áttu í erfiðleikum. Ekkert fyrirtæki mátti fara á hausinn, a.m.k. ekki ef það var úr réttu kjördæmi, og fóru milljarðar í vonlausar björgunaraðgerðir. Það er hins vegar jafn nauðsynlegt heilbrigðu hagkerfi að óarðbær fyrirtæki megi verða gjaldþrota og að ný geti sprottið upp. Því er nú haldið fram að skilningur á þessu eigi þátt í því að Tævan hefur ekki farið jafn illa og t.d. Suður-Kórea í þeirri fjármálakreppu sem nú gengur yfir Suð-Austur-Asíu. Hagkerfið í Tævan hefur verið frjálsara og sveigjanlegra en í Suður-Kóreu, þannig að á meðan hinir síðarnefndu hafa gert meira af því að beina fjármagni til ákveðinna fyrirtækja fyrir tilstuðlan ríkisins, hafa Tævanir látið markaðsöflin ráða ferðinni.

Í hinni dæmalausu umræðu um umhverfismál er því stundum haldið fram að veður muni almennt gerast vályndari er fram líða stundir. Því hefur m.a. verið haldið fram að fellibyljum muni fara fjölgandi. Samkvæmt nýlegri rannsókn eru þó engin tengsl á milli hitabreytinga og fellibylja og fellibyljum hefur ekki farið fjölgandi nema síður sé. En þar sem sjónvarpið nú á dögum færir fólki beinar lýsingar af fárviðrum sem öðru, koma óveðrin frekar inn í stofu en áður var, þannig að eðlilegt er að fólk fái á tilfinninguna að veðrið láti verr nú en áður.

„Velferðarríkið á upptök sín í mannúðlegum hugsjónum, en gæti samt ekki farið svo, að umhyggja þess fyrir þegnunum yrði að lokum frelsi þeirra tvíeggjað sverð? Temur ríkið sér ekki margs konar hegðun, sem ekki mundi þykja góð latína í samskiptum þegnanna, svo sem hnýsni í einkamál, fjármunalega ágengni, hóflausa og þarflausa afskiptasemi? Þetta leiðir af því, sem reyndar liggur í hlutarins eðli, að ríkissiðgæði stendur yfirleitt á miklu lægra stigi en einkasiðgæði.
… Enginn efast um, að valdhafarnir vilji þegnum sínum allt hið besta eins og vera ber í lýðræðisríkjum, en er ekki einmitt þess vegna nokkur hætta á því, að hin hóflausa umhyggja þeirra og hjartagæska leiði fyrr en lýkur til þess, að þeir telji velferð og eignum þegnanna örugglegast borgið í sínum höndum?“ Svo skrifaði Tómas skáld Guðmundsson snemma á fimmta áratugnum og ekki hefur ríkisvaldið minnkað síðan þá. Í dag eru 97 ár liðin frá fæðingu Tómasar.

Fyrsta tölublað Náttfara á nýju ári er komið út. Þar er m.a. fjallað um stjórnlyndi Ögmundar Jónassonar, hugmyndir Margrétar Thatcher um einkavæðingu og brölt Össurar Skarphéðinssonar á ritstjórastóli.