Föstudagur 10. september 2004

254. tbl. 8. árg.

Jafnréttisbaráttan væri ekki til án prósentureiknings. Nú orðið snýst hún ekki um annað en að finna einhvern kima þjóðfélagsins þar sem hægt er að reikna út að konur séu eða hafi verið með með lægri prósentu en karlar. Og þá er hægt að halda umræðunni um „kynjamisréttið“ áfram á kostnað skattgreiðenda.

Ekkert í lögum eða reglum hér á landi hallar á konur. Ef meint „kynjamisrétti“ er til staðar er það í raun bara hegðunarvandamál, bæði kvenna og karla. Enginn þvingar þessa hegðun fram og ríkið á ekki að skipta sér af henni. Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir ritar grein í nýjasta tölublað tímaritsins Orðlaus þar sem hún skoðar meðan annars kynjahlutfall í stjórnum nemendafélaga nokkurra menntaskóla. Tilgangurinn hennar er að skoða hvort „jafnrétti kynjanna“ sé bara tímaspursmál, þetta komi allt með nýrri kynslóð. Í þeim sex skólum sem Bryndís skoðaði eru 37 einstaklingar í stjórnum, 29 strákar og 8 stelpur. Strákar eru formenn í fimm félögum en stelpa í einu. Af þessu dregur Bryndís sínar ályktanir og beinir orðum sínum til kynsystra sinna.

Efasemdir mínar voru sem sagt staðfestar – það er engan veginn kominn tími til að slaka á og vona að með komandi kynslóðum gerist eitthvað af sjálfu sér. Værum við sátt ef bara rauðhærðir eða brúneygðir settu lögin sem við þurfum að fylgja? Sennilega ekki og fæst okkar eru sátt við að karlmenn setji einir lög og reglur landsins. En það er ekki sjálfgefið að einhverjar aðrar stelpur taki sig til og bjargi þessu með því að bjóða sig fram hvort sem það er í stjórn nemendafélagsins eða ungliðahreyfingu eða til þings. Þú þarft að pæla í því hvort þú viljir ekki hafa áhrif á samfélagið í kringum þig.

Meginniðurstaða Bryndísar er auðvitað sú sem liggur í augum uppi. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að stelpur gefi kost á sér í stjórnir nemendafélag nema að þær virðast ekki hafa jafn mikinn áhuga á því og drengir. Væntanlega er það vegna þess að þær hafa meiri áhuga á einhverju öðru. Það er þeirra ákvörðun. Það er hægt að hafa áhrif á þjóðfélagið með öðrum hætti en metorðastriti í nemendafélögum og stjórnmálaflokkum, ekki síst eftir það valdaafsal sem átt hefur sér stað frá ríkinu til einstaklinganna með einkavæðingu og auknu frjálsræði á síðustu árum. Það er heldur ekkert rangt við að Bryndís sé ósammála þeim um hvað sé mikilvægast í lífinu, skrifi um það í blöðin og skori á þær að gera eitthvað annað en þær hafa kosið þótt það sé einkennileg heildarhyggja að flokka fólk með þessum hætti eftir kyni. En þótt Bryndísi og fleiri „kvenréttindasinnum“ þyki nauðsynlegt að vanda um fyrir kynsystrum sínum er ekki þar með sagt að það eigi að skikka alla landsmenn til að kosta slíkan áróður en því miður hefur það færst í vöxt að ríki, sveitarfélög og opinberar stofnanir setji upp jafnréttisráð og -nefndir og ráði til sín jafnréttisfulltrúa til að fjalla um þessi kynjahlutföll í þjóðfélaginu. Þessi starfsemi er orðin blómlegur iðnaður með sjálfstæða hagsmuni af því að fólk trúi því að hér sé eitthvert „kynjamisrétti“ sem ríkið þurfi að berjast gegn með jafnréttisráðum og -nefndum.

Það er einnig misskilningur Bryndísar að lög og reglur landsins verði dæmd eftir því hverjir það voru sem kosnir voru til að setja þau. Það er ekkert að því að rauðhærðar konur setji öll lög ef lögin eru góð. Þær mættu þess vegna allar vera rauðeygðar líka ef þær væru nótt sem nýtan dag að fækka boðum og bönnum og lækka skatta. En ef þær væru allar á kafi í forsjárhyggju og hækkuðu skatta myndi Vefþjóðviljinn ekki heimta nýja þingmenn á þeirri forsendu að það þyrfti annan háralit á hausana heldur aðra hugsun í kollana. Það er engu líkara en að Bryndís sé að biðja um að almennar kosningar verði lagðar af og valið á Alþingi í réttum hlutföllum eftir kynferði, háralit og skóstærð. Það er eina leiðin til að tryggja að lögin og reglurnar séu sett af því þversniði þjóðfélagsins sem Bryndís virðist vera að biðja um.