Fimmtudagur 9. september 2004

253. tbl. 8. árg.

Ádögunum skipaði Árni Magnússon nýjan ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneytið. Fyrir valinu varð Ragnhildur Arnljótsdóttir lögfræðingur, sem fæstir höfðu sjálfsagt heyrt getið, þó ekkert bendi hins vegar til að hún sé ekki hæf í starfið. Ekki urðu allir ánægðir með skipunina og samstarfsmenn og félagar eins umsækjanda um stöðuna, Helgu Jónsdóttur borgarritara, urðu hinir verstu og æddu í fjölmiðla og sökuðu Árna Magnússon um hina verstu fólsku. Helga hefði einfaldlega verið hæfust, sjálfsagt langhæfust. Hér kemur enn að sígildu deiluefni, sem reyndar virðist vera sífellt vinsælli baráttuaðferð, spurningunni um það hver var „hæfastur“ í starf.

Hér er vitaskuld rétt að greina milli opinberra starfa og svo starfa fyrir einkaaðila. Einstaklingar og fyrirtæki sem ráða sér starfsfólk eru vitanlega sjálfráða um það hvern þeir ráða og þurfa ekki að standa neinum skil á því, fyrir utan að til ákveðinna starfa þarf réttindi frá hinu opinbera; fyrirtæki sem vill ráða sér bílstjóra til starfa getur ekki valið úr öllum umsækjendum heldur situr uppi með þá umsækjendur sem hafa bílpróf, og svo framvegis. – Þegar hið opinbera ræður menn til starfa gilda önnur sjónarmið. Þar er farið fram á að hinn hæfasti verði ráðinn hverju sinni, og það er auðvitað skiljanleg ósk skattgreiðenda.

Þessi ósk, að hinn „hæfasti“ sé ráðinn, hefur hins vegar ákveðinn galla. Hún gefur til kynna að það sé einfaldlega einhver einn umsækjenda sem sé „hæfastur“. Svo þarf ekkert að vera, auk þess sem hæfileikar fólks verða ekki alltaf sýndir og mældir svo glögglega. Fólk hefur mismunandi hæfileika; ólíkir þættir í manngerð, skapferli, reynslu og hæfileikum og svo framvegis gera það að verkum að það eru engir tveir „jafn hæfir“ starfsmenn og einnig það að ekki verður alltaf svo glöggt slegið föstu hvor tveggja sé hæfari. Ef tveir umsækjendur eru hæfir til að gegna starfi; hafa til dæmis báðir þá reynslu og menntun sem fara má fram á, þá verður það að jafnaði huglægt og umdeilanlegt mat hvor þeirra er hæfari. Hugsum okkur að ekki sé að velja mann í hefðbundið starf heldur verið að velja ellefta manninn í fótboltalið, verið að velja síðasta framherjann. Tveir kappar koma til greina. Annar hefur leikið ótal leiki og er þrautreynt brýni. Sendingar hans eru hárnákvæmar og hann virðist alltaf vera þar á vellinum sem hagstæðast er. Hinn hleypur þindarlaust, fórnar sér óhikað í návígin og klikkar aldrei á víti. Hvetur félagana áfram með baráttu sinni og er góður félagi í liðinu. Það er sennilegt að flestir stuðningsmenn liðsins myndu treysta sér til að fullyrða án hiks hvor væri „betri“, en það er allt annað mál hvort þeir yrðu sammála um valið. Eða hvernig þeim gengi nú að rökstyðja það fyrir öðrum.

Í dæmi eins og þessu verður einhver að höggva á hnútinn. Þjálfarinn einfaldlega velur liðið. Hann verður að ákveða hvaða sjónarmið skulu ráða hverju sinni og verður þar að gera upp á milli margra sjónarmiða sem til greina geta komið. Þjálfarinn verður einfaldlega að velja þá menn sem hann telur að skili bestum árangri. Hann getur ekkert sannað fyrir þeim, sem hefðu valið öðruvísi, að hann hafi valið besta liðið. Það dytti engum í hug að setja yfir honum réttarhöld út af valinu, láta einhverja eftirlitsnefnd telja saman hversu mörg mörk hver og einn hefði skorað á ferlinum, hversu hratt hann hlypi tvöhundruðmetrana, hversu marga leiki hann hefði leikið, hversu margar áminningar hann hefði fengið – og reikna svo út hvaða leikmenn væru „hæfastir“. Þjálfarinn verður einfaldlega að meta leikmennina sjálfur og við það val situr. Svo er alltaf hægt að reka þjálfarann ef ekkert annað gengur.

Að mörgu leyti á svipað við um ráðningar í starf hjá hinu opinbera. Ef umsækjendur uppfylla almenn hæfisskilyrði þá verður sá sem ræður í starfið að hafa talsvert frelsi til að ákveða á hvað leggja beri áherslu hverju sinni. Það, að koma eftir á og telja upp hvaða umsækjandi hafi setið í flestum nefndum, skrifað flestar greinar, setið flest námskeið, starfað á mörgum stöðum og svo framvegis, og ætla þannig að reikna út hver var „hæfastur“, er ekki endilega svo góð hugmynd. Það er ekki endilega þannig að það sé hægt að sýna fram á að einn sé hæfari en annar. Oft eru tveir, eða fleiri, hæfir einstaklingar sem hafa ólíka kosti og ólíka galla. Einhver verður svo að velja á milli þeirra, gera sér heildarmynd af þeim og velja svo.

Það hefur ekkert komið fram um að Árni Magnússon hafi ekki valið hæfan einstakling til að gegna starfi ráðuneytisstjóra og fyrst svo er, þá þýðir ekkert að fara í útreikninga á því hvort einhverjir aðrir umsækjendur hafi lokið svo og svo mörgum námskeiðum eða starfað svo og svo lengi hér eða þar, og segja svo að einhver annar hafi verið hæfastur.