Vefþjóðviljinn 31. tbl. 19. árg.
Ef marka má yfirlýsingar þingmanna vinstri flokkanna í umræðunni um hinn furðulega „náttúrupassa“ virðist sem „almannarétturinn“ eigi að tryggja að flokkur sjö tékkneskra rútubíla með sjötíu ferðalöngum hver, auk fylgivagns með býtibúr, geti brunað hvert sem er og hjörðin ruðst út á tún án þess að landeigendur hafi nokkuð um það að segja.
Jú, jú, Grágas tryggir að maður á sauðskinsskóm megi stytta sér leið yfir land annars manns og tína bláber og fjallagrös upp í sig til að draga fram lífið.En að milljón erlendum ferðamönnum – klæddir mörg þúsund dala hátæknianorak, angórunærbrók og skóm sem hannaðir voru fyrir US Navy SEALs – sé árlega att á hvers manns land án þess að landeigendur, hvort sem er ríkið eða einstaklingar, fái rönd við reist er svolítið annað mál.
Auðvitað hljóta landeigendur á hverjum stað að heimta gjöld af þessum ferðalöngum fyrir bílaplön, göngustíga, salernisaðstöðu og almenna umhirðu svæðis. Og blasir ekki að þetta sé gert á hverjum stað með þeim hætti sem hentar þar best fremur en að búið sé til opinbert bákn með opinberum úthlutunarsjóði sem úthlutar eftir því hver hefur greiðastan aðgang að stjórnarþingmönnum hverju sinni?