Vefþjóðviljinn 32. tbl. 19. árg.
Því verður vart trúað að iðnaðarráðherra og aðrir þingmenn stjórnarflokkanna láti ólög vinstri stjórnarinnar um endurnýjanlegt eldsneyti á bíla standa óbreytt.
Til viðbótar við tjónið sem varð á síðasta ári vegna innflutnings á dýrum lífolíum í Dieselolíu gætu lögin neytt íslensk olíufélög til að blanda dýru og orkusnauðu korn-etanóli í bensín.
Það leikur enginn vafi á því að etanólíblöndun eykur eyðslu í bílvélum og fjölgar ferðum á bensínstöðvar.
Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna (EPA) segir til að mynda að eyðsla í bílvélum aukist við íblöndun etanóls:
Since ethanol contains about two-thirds as much energy as gasoline, vehicles will typically go 3% to 4% fewer miles per gallon on E10 and 4% to 5% fewer on E15 than on 100% gasoline.
Orkustofnun íslenska ríkisins hefur hins vegar tekið virkan þátt í að breiða yfir þau mistök sem gerð voru með setningu laganna um endurnýjanlegt eldsneyti. Enda var Orkustofnun meðvirk í málinu þótt slíkum stofnunum sé ætlað að bæta stjórnmálamönnum upp vanþekkingu á tæknilegum viðfangsefnum.
Á dögunum sendi Orkustofnun frá sér tilkynningu um að lögin um endurnýjanlega eldsneytið kostuðu landsmenn að vísu „einhverjar krónur.“ Þá var komið á daginn að íslenskir bíleigendur höfðu á árinu 2014 verið látnir greiða um 700 milljónir króna fyrir innflutning á dýrri lífolíu umfram það sem hefðbundin Dieselolía hefði kostað.
Um etanólíblöndun í bensín segir á vef hinnar meðvirku Orkustofnunar:
Etanól blandast í bensín, þó orkuinnihald þess sé ívið lægra. Það þýðir að bensínbíll sem keyrir á etanólblönduðu bensíni kemst ekki alveg jafn langt á lítranum og sambærilegur bíll sem keyrir á hreinu bensíni.
Ívíð lægra! Etanóllítrinn hefur 34% lægra orkuinnihald en bensínlítrinn.
Orkustofnun fær 400 milljónir króna á fjárlögum. Ætli stjórnendum Orkustofnunar þætti það tiltökumál að framlag skattgreiðenda á næsta ári yrði „ívið lægra“? Myndi kannski lækka úr 400 milljónum í 264 milljónir? Slík lækkun um 34% nær því ekki einu sinni að vera „einhverjar krónur.“
Jafnvel umhverfissinnar á borð við Al Gore eru farnir að viðurkenna að það séu „mistök“ að þvinga menn til að blanda jurtaafurðum á borð við etanól í hefðbundið eldsneyti.
Ýmis umhverfisverndarsamtök segja tilskipanir um endurnýjanlegt eldsneyti leiða til útblásturs gróðurhúsalofttegunda, skógareyðingar, þær skaði lífríkið, séu dýrkeyptar fyrir skattgreiðendur, hreki smábændur af jörðum sínum og leiði til hungurs í heiminum.
Hvað ætli þurfi eiginlega til að íslenskir stjórnmálamenn neiti að taka þátt í þessu?