Mánudagur 2. febrúar 2015

Vefþjóðviljinn 33. tbl. 19. árg.

Mynd af vef Glacier þjóðgarðsins í Montana sem fólk sækir heim þrátt fyrir svonefnda gjaldskúramenningu.
Mynd af vef Glacier þjóðgarðsins í Montana sem fólk sækir heim þrátt fyrir svonefnda gjaldskúramenningu.

Það kostar fjölskyldu á bíl 20 til 30 dali að heimsækja bandaríska þjóðgarða á borð við Yellowstone, Glacier og Yosemite. Aðgangurinn gildir jafnan í nokkra daga. Rútur með fleiri en 26 sæti greiða um 300 dali.

Kannanir hafa sýnt að þessi aðgangseyrir er innan við 2% af heildarferðakostnaði gesta. Hann vegur ekki þungt í samanburði til kaup á veitingum, gistingu og eldsneyti.

Og ekki fara miklar sögur af því að ferðalangar fyllist viðbjóði við að sjá „gjaldskúr“ í útjaðri svæðanna þar sem kaupa má aðgang.

Frá árinu 2004 hafa þjóðgarðar Ameríku fengið að hirða aðgangseyrinn sjálfir til viðhalds og reksturs og þurfa því ekki að treysta á framlög frá skattgreiðendum.
Þetta er ekkert voðalega flókið.

En svo eru auðvitað alltaf einhverjir sem vilja frekar setja upp miðstýrð kerfi með stórum úthlutunarsjóði, umsóknarferli, umsagnarnefndum, fagaðilum, hagsmunaðilum, úrskurðarnefndum, kæruleiðum.

Hvernig mun náttúrupassasjóðurinn afgreiða umsókn frá Hallgerði bónda sem setur upp borð og bekki og jafnvel salerni á landi sínu við þjóðveginn og býður ferðalöngum þessa fínu aðstöðu til að horfa á einstæða hlíðina fyrir ofan bæinn? Jú gott og vel, hún er kjósandi í suðurkjördæmi og fær sitt.

En hvað þá með nágranna hennar, hann Njál, sem getur ekki verið minni maður og fær Bergþóru konu sína til að smíða samskonar borð og stóla? Njáll sendir svo inn umsókn í náttúrupassasjóðinn, vísar í fordæmið úr sveitinni og vekur athygli á kynjahallanum hvað þetta varðar. Hvað segir náttúrupassasjóður við því?