Föstudagur 30. janúar 2015

Vefþjóðviljinn 30. tbl. 19. árg.

Stjórnmálamenn eru mismiklir leiðtogar.

Eins og flestir vita hefur verið lagt fram frumvarp á Alþingi um afnám einkasölu ríkisins á áfengi. Frumvarpið hefur mikið verið rætt og margir hafa lýst á því eindreginni skoðun, hvort sem er til stuðnings eða andstöðu.

Í Viðskiptablaðinu var í gær rætt við einn mann sem gat hins vegar alls ekki gert upp hug sinn til málsins. Í blaðinu er haft eftir honum að málið sé „lítilfjörlegt“. Þegar hann er spurður hvernig hann myndi greiða atkvæði um það á þingi ef atkvæðagreiðslan færi fram í dag, segist hann ekki vilja svara og bætir við: „Ég tjái mig aldrei um svona nema með atkvæði í þinginu.“

Þessi skörungur heitir Árni Páll Árnason og er formaður Samfylkingarinnar.

Því miður fylgdi blaðamaður þessu svari flokksleiðtogans ekki eftir með spurningu um hvernig hann myndi greiða atkvæði um afturköllun inngöngubeiðni Íslands í Evrópusambandið, ef sú tillaga yrði borin upp í dag. Það er ekki víst að hann hefði fengið það sama svar, að Árni Páll tjáði sig „aldrei um svona nema með atkvæði í þinginu.“