Vefþjóðviljinn 45. tbl. 18. árg.
Fjölmiðlar sögðu í gær frá því að kveðnir hefðu verið upp sýknudómar „í Vafningsmálinu svokallaða“.
Það er eitthvað skemmtilegt við slíkt orðalag. Hver hefur kallað málið „Vafningsmálið“? Jú, það eru fjölmiðlar sjálfir. Það væri í raun talsvert eðlilegra ef í fréttum væri notað orðalagið „í málinu sem við hér á fréttastofunni köllum Vafningsmálið.“
Auðvitað er skiljanlegt að fréttamenn reyni að auðkenna hvert og eitt mál með einhverju aðalatriði málsins, svo áheyrendur geti greint milli dómsmála. „Stóra fíkniefnamálið“, „Stokkseyrarmálið“, „Geirfinnsmálið“, og svo framvegis. Þetta er allt saman eðlilegt.
Það sem hins vegar er forvitnilegt er nafngiftin „Vafningsmálið“. Félagið „Vafningur“ var örlítill hluti af málinu. Málið var líka í upphafi oftast kallað „Milestone-málið“, ef Vefþjóðviljinn man rétt, enda kom félagið Milestone mjög við sögu og skipti verulegu máli. En skyndilega var lögð mikil áhersla á að koma nafninu „Vafningsmálið“ í hverja frétt. Og var það ekki fréttastofa Ríkisútvarpsins sem hafði þar mikinn áhuga?
Hvaða skýring getur nú verið á því að síðasta vetur hafi verið mikið lagt upp úr því, að mál sem snerist um að ákæruvaldið taldi að fé Íslandsbanka hefði verið sett í hættu með lánveitingu til Milestone, skyldi alltaf kallað „Vafningsmálið“?
En nú er sakamálinu lokið. Niðurstaðan er sú að ekki var framið refsivert brot „í Vafningsmálinu svokallaða.“ Fé bankans var ekki sett í hættu.
Það hlýtur að gleðja alla þá sem töldu mikla glæpi hafa verið framda þarna.