Vefþjóðviljinn 44. tbl. 18. árg.
Karl Garðarsson þingmaður Framsóknarflokksins spurði að því á dögunum hvort vinstri grænir þekktu ekki mun á dóms- og löggjafarvaldi. Tilefnið var að flokksráðfundur VG hafði samþykkt ályktun um „að ákærur á hendur þeim níu einstaklingum sem voru á meðal þeirra sem héldu uppi friðsömum mótmælum í Gálgahrauni verði afturkallaðar.“
Karl spurði því:
Og hvert er Vinstri hreyfingin – grænt framboð eiginlega að fara? Hefur þessi flokkur aldrei heyrt getið um aðskilnað löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds? Hér hikar flokkurinn ekki við að ganga inn á svið ákæruvaldsins og færa það undir hið pólitíska vald.
Við þessa ádrepu Karls varð Vefþjóðviljanum hugsað til viðtals við Frosta Sigurjónsson alþingismann fyrir mánuði. Þar var Frosti einu sinni sem oftar að útskýra níföldun á bankaskatti á valin fjármálafyrirtæki og undanþágu fyrir önnur:
Tilgangur þessa skatts er það bæta ríkissjóði það tjón sem ríkissjóður varð fyrir í hruninu. MP banki er vissulega ekki einn af þeim bönkum sem tók þátt í því tjóni og það hefði mátt færa rök fyrir því að hann ætti alls ekki að greiða neinn skatt en hann greiðir samt skatt samkvæmt þessu. Honum er ekki algerlega hlíft.
Hér lýsir Frosti því hvernig löggjafinn tók sér dómsvaldið sem venjulega kveður upp úr um hvort menn fái bætur fyrir tjón. Alþingi virðist hafa ákveðið að sækja „bætur“ til nokkurra aðila án þess að fara hinu hefðbundnu leið að sækja þær fyrir dómi. Hin vandaða viðskiptanefnd Alþingis, undir forystu Frosta, rannsakaði málið og gerði tillögu um hæfilegar bætur til ríkisins og hver ætti að greiða þær. Ekki var talin þörf á að hinir meintu tjónvaldar fengju að halda uppi vörnum.
Karl Garðarsson og félagar hans á löggjafarsamkundunni samþykktu svo bótakröfuna.