Laugardagur 15. febrúar 2014

Vefþjóðviljinn 46. tbl. 18. árg.

Í fyrradag velti Vefþjóðviljinn því fyrir sér hvernig það samræmdist þrískiptingu ríkisvaldins að efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis tæki upp á því rannsaka hverjir bæru ábyrgð á því tjóni sem ríkissjóður varð fyrir í hruninu og gæfi svo út ákæruskjal í formi lagafrumvarps á hendur nokkrum fyrirtækjum sem nefndin teldi að ættu að „bæta ríkissjóði það tjón sem ríkissjóður varð fyrir í hruninu“ eins og Frosti Sigurjónsson formaður nefndarinnar orðaði það þegar hann færði rök fyrir níföldun skattlagningar á þessa aðila.

Niðurstaða þessarar einstæðu dómsmeðferðar Alþingis er að þrír viðskiptabankar af fjórum eigi að greiða ríkinu „bætur“ fyrir það „tjón sem ríkissjóður varð fyrir í hruninu.“ Einn viðskiptabanki er saklaus að mati þingsins og sömuleiðis allt sparisjóðakerfið.

Þessir þrír meintu tjónvaldar voru þó allir stofnaðir eftir hrunið, að atbeina og með þátttöku ríkissjóðs sjálfs. Enginn hluthafi gömlu bankanna virðist eiga hlut í þessum nýju bönkum.

Helstu eigendur tveggja þeirra eru þeir sem töpuðu mestu á því að lána gömlu bönkunum fé.

Þannig að þeir sem urðu fyrir mestu tjóni við fall gömlu bankanna eiga nú að greiða ríkissjóði bætur fyrir skellinn.