Vefþjóðviljinn 167. tbl. 18. árg.
Í gær var hér fjallað um grein Einars S. Hálfdánarsonar, hæstaréttarlögmanns og löggilts endurskoðanda, í laugardagsblaði Morgunblaðsins, þar sem Einar fjallaði um það augljósa atriði, sem fréttamenn gæta vandlega að nefna aldrei, að utanríkisráðherra er fullkomlega heimilt að afturkalla inngöngubeiðni Íslands í Evrópusambandið án þess að um það sé gerð sérstök þingsályktun.
En í greininni er fjallað um fleiri mikilvæg mál. Eitt þeirra hlutur embættismanna utanríkisráðuneytisins, en með vaxandi gengi ópólitískra og átakahræddra stjórnmálamanna sem ekkert gera nema um það sé „pólitísk sátt“, aukast áhrif embættismanna verulega. Ópólitískir ráðherrar láta sér vel líka að vera í raun starfsmenn embættismanna ráðuneytisins, enda geta þeir þannig borið fram viðamikil mál semum verður „pólitísk sátt“, enda er ekki vitund af stefnu stjórnmálaflokks ráðherrans í málinu. „Pólitíska sáttin“ náðist vegna þess að ráðherrann barðist ekki fyrir neinu pólitísku, heldur eingöngu því sem embættismennirnir vildu og stjórnarandstaðan samþykkti.
Í grein Einars S. Hálfdánarsonar segir meðal annars:
Mikill harmur var kveðinn að mörgum helstu embættismönnum í utanríkisráðuneytinu og ýmsum öðrum sem helst komu að aðildarferlinu þegar fram kom tillaga um afturköllun aðildarumsóknar. Jafnframt því að eiga að vera að gæta hagsmuna Íslands voru þeir að máta sig við stólana í Brussel þar sem þægileg, skattfrjáls hálaunastörf myndu bíða þeirra. Það væri ráð að spyrja utanríkisráðherra hvort rétt sé að uppi hafi orðið fótur og fit í ráðuneyti hans þegar afturköllun umsóknar kom þar inn á borð. En til að hafa varann á um framtíðina væri öruggast að setja í lög að þeir sem eiga að vera að gæta hagsmuna Íslands í samningum megi ekki, þaðan í frá, ráða sig í vinnu hjá gagnaðilanum. Það myndi líka draga úr ákafanum.
Þingmenn ættu að leiða í lög þá reglu sem Einar leggur til. Þá myndi hugsanlega draga úr ákafa embættismanna við að beita ráðherrum fyrir hugðarefni sín. Menn geta velt fyrir sér hvort utanríkisþjónustan hefði verið jafn áköf í framboði til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna ef slík regla hefði gilt.