Mánudagur 4. janúar 2010

4. tbl. 14. árg.

A listair Darling var í dag dreginn fram til að þrýsta á um samþykkt Icesave-ánauðarinnar. Afar áberandi var hvað hann taldi gerast ef ánauðinni yrði hafnað. Þá yrði „staðan erfiðari“. Ekki að þá færu Bretar í mál og fengju miklu meiri pening, eins og íslenskir stjórnarþingmenn boða, ekki að þá myndu Bretar einangra Íslendinga og svelta þá til hlýðni, eins og íslensk ráðuneyti boða, nei ekki neitt sérstakt. Þá verður staðan „erfiðari“. Enginn fréttamaður benti á þessi augljósu atriði. Fyrir þeim var málflutningur Darlings stuðningur við þrýsting þeirra á samþykkt Icesave-ánauðarinnar.

Ú trásarbankanir borguðu ævisögu forseta Íslands, bókina um forsetatíð Ólafs Ragnars sem átti að heita Útrásarforsetinn. Bankarnir komust í þrot nokkrum dögum áður en fyrsta prentun komst á fullt og bókinni var breytt.

Nú situr Ólafur Ragnar og veltir fyrir sér hvort hann eigi að samþykkja að skuldir eins þessara banka verði lagðar á íslenska skattgreiðendur og verða byrði á þeim alla ævi.

Það yrði furðuleg hringrás, ef menn yrðu, með samþykki forseta Íslands, alla ævi að borga skuldir bankans sem borgaði glanssöguna af forsetatíð sama manns.

Í dag talaði Ríkissjónvarpið við Sigurð G. Guðjónsson lögmann, og kynnti hann sem einn helsta ráðgjafa Ólafs Ragnars Grímssonar, sem líklega er ekki ofmælt, en Sigurður var varaformaður stuðningsmannafélags Ólafs Ragnars í forsetakosningum og síðar umboðsmaður hans og lögmaður. Sigurður sagði að hann vildi að Ólafur Ragnar staðfesti Icesave-lögin og bætti því við það væri almennt viðurkennt að lög um málefni eins og hér væru á ferð hentuðu ekki til þjóðaratkvæðis.

Fréttamenn slepptu auðvitað að spyrja nokkurs frekar, en þeir hefðu mátt benda á að Ólafur Ragnar Grímsson hefur þegar svarað þessum sjónarmiðum og hafnað þeim. Þegar hann staðfesti fyrri Icesave-lög þá höfðu um tíu þúsund manns hvatt hann til að synja þeim staðfestingar. Ólafur Ragnar staðfesti þá lögin engu að síður, og kvaðst beinlínis gera það í ljósi þeirra fyrirvara sem alþingi hefði sett við ríkisábyrgð og þá miklu samstöðu sem myndast hefði um þá á þingi. Ef Ólafur Ragnar væri þeirrar skoðunar að efnislega væri ekki hægt að leggja lög af þessu tagi í þjóðaratkvæði, þá hefði hann einfaldlega sagt það og sleppt öðrum tilvísunum.

N ú blasir við öllum nema fréttamönnum að bæði fyrirvarar alþingis og ekki síður hin mikla samstaða á alþingi, er horfin út í veður og vind. Þetta tvennt var þó það sem réði ákvörðun Ólafs Ragnars í haust, að hans eigin sögn. Ofan á þetta bætast undirskriftir fimmtíu til sextíu þúsund manna, skoðanakönnun sem segir 70% landsmanna vilja að forseti synji lögunum staðfestingar og yfirlýsingar meirihluta þingmanna um að þeir vilji þjóðaratkvæði um málið.

Enda hefur Ólafur Ragnar tekið sér „umhugsunarfrest“.

M ikill spuni hefur gengið undanfarna daga, í skjóli „umhugsunarfrests“ forseta Íslands, til þess telja fólki trú um að jörðin hætti að snúast um sólu ef forseti Íslands staðfesti ekki lög sem færa Icesave-ánauðina yfir á íslenska skattgreiðendur. Mesta hugmyndaauðgi spunameistara sýnir fréttastofa Ríkisútvarpsins sem telur hættu á því að Bretar og Hollendingar segi hreinlega upp samningum um Icesave, ef forsetinn staðfestir ekki lögin.

Það hlýtur að vera hótun ársins. „Samningurinn“ sem fréttamennirnir óttast að verði sagt upp, er nauðungarsamningur sem veitir Bretum og Hollendingum rétt sem þeir hafa ekki áður, og leggja skyldur á Íslendinga sem þeir hafa ekki. Það væri nú aldeilis skaði ef Bretar og Hollendingar segðu ófögnuðinum upp.

MM eiri fréttamannafróðleikur. „Ríkisábyrgð verður á Icesave-skuldinni hvort sem forseti staðfestir Icesave-lögin eða ekki. Þangað til hann tekur ákvörðun gilda gömlu Icesave-lögin frá því í lok ágúst“, þuldi Ríkissjónvarpið yfir landsmönnum í gærkvöldi. Hér virðast fréttamenn ekki átta sig á tveimur grundvallaratriðum. Í fyrsta lagi: Icesave-lögin í sumar leggja ekki ríkisábyrgð á Icesave-skuldir Landsbankans. Hin eldri Icesave-lög veittu fjármálaráðherra heimild til að ábyrgjast lán vegna skuldarinnar. Lögin fyrirskipa honum það ekki og leggja ein og sér enga ábyrgð á ríkið. Til þess þarf sérstaka ákvörðun fjármálaráðherra. Hitt atriðið, sem fréttamenn hafa gleymt, er að þessa heimild veitti alþingi fjármálaráðherra með nokkrum skilyrðum. Eitt skilyrðið var að Bretar og Hollendingar samþykktu öll hin skilyrðin. Það gekk ekki eftir og því hefur fjármálaráðherra ekki heimild til að veita ríkisábyrgðina.

Fullyrðing fréttastofu Ríkisútvarpsins í gærkvöldi: „Ríkisábyrgð verður á Icesave-skuldinni hvort sem forseti staðfestir Icesave-lögin eða ekki“, er því alröng.

ÍÍ gærkvöldi sagði Steingrímur J. Sigfússon í fréttum Ríkissjónvarpsins að það væri „auðvitað“ ekkert „dagaspursmál“ að ljúka Icesave-málinu. Fréttamanni þótti ekki ástæða til að spyrja hvers vegna þingmenn hafi þá verið kallaðir til næturfunda milli jóla og nýárs og forseti Alþingis sérstaklega bannað erlendum lögmönnum að senda alþingismönnum upplýsingar, því engan tíma mætti missa.

F réttamenn halda áfram að tyggja að stjórnarskrá og lög setji engin mörk á þeim fresti sem forseti Íslands hafi til að gera upp sinn hug um staðfestingu laga. Það er rétt hjá fréttamönnum að stjórnarskráin segir ekkert um það. En á því er skýring sem blasir við. Forseti hefur engan umhugsunarfrest. Hafi hann persónulegt synjunarvald ber honum að staðfesta lög eða synja þeim um samþykki, þegar ráðherra leggur þau fyrir hann. Ráðherra lagði lögin fyrir forseta á ríkisráðsfundi og fór fram á staðfestingu þeirra. Forseti varð ekki við því.