Í fréttum erlendra fjölmiðla af synjun forseta Íslands á staðfestingu laga um ríkisábyrgð á skuldum vegna Icesave reikninganna endurómar áróðurinn sem ríkisstjórn Íslands hefur sjálf látið dynja á landsmönnum undanfarin misseri:
* Íslendingar eru að hlaupast frá skuldbindingum sínum.
* Íslendingum verður úthýst úr alþjóðasamfélaginu.
Í hroka sínum og yfirlæti hélt ríkisstjórnin áfram að hamra á þessum punktum í yfirlýsingu sinni eftir ákvörðun forsetans. Jafnframt lýsti Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra því yfir að farið yrði í að kynna málstað Íslands fyrir erlendum fjölmiðlum við fyrsta tækifæri. Ekki á meðan þessi ákvörðun forsetans er í heimspressunni heldur við tækifæri.
Það er með fullkomnum ólíkindum að ríkisstjórnin hafi ekki verið búin að undirbúa viðbrögð við þessari niðurstöðu forsetans. Forsetinn neitaði að undirrita lögin á gamlársdag og síðan líða dagarnir hver af öðrum án þess að ríkisstjórnin horfist í augu við að niðurstaðan gæti orðið sú sem nú liggur fyrir. Með ákvörðun forsetans fékk ríkisstjórnin gullið tækifæri til að kynna þessi atriði fyrir erlendum fjölmiðlum:
* Engin lög kveða á um að Íslendingum beri að þjóðnýta skuldir einkabankans.
* Alþjóðasamfélagið má ekki án laga og réttar þvinga einstök ríki til gjaldþrots á þennan hátt.
* Íslendingar ætla að sýna það góða fordæmi að skella ekki frekari skuldum einkabanka á skattgreiðendur.
Það lét hún sér úr greipum ganga.